14% óveidd af þorskkvótanum

Deila:

Nú eru um ríflega 14% óveidd af þorskkvóta þessa árs, þegar ríflega einn mánuður er eftir af fiskveiðiárinu. Heildaraflinn var í gær orðinn um 166.000 tonn af slægðum þorski samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Leyfilegur heildarafli er um 193.000 tonn og því eru óveidd 27.000 tonn af slægðum þorski.

Þrátt fyrir verkfall í nærri tvo mánuði í vetur er þorskaflinn góður og lítil hætta á að aflaheimildir brenni inni, þó kvótinn klárist ekki. Nú er heimilt að flytja 30% aflaheimilda í botnfiski milli fiskveiðiára, sem er undantekning frá reglunni sem er 15% flutningsheimild. Flutningaheimildirnar voru auknar með reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins í kjölfar verkfallsins, en ekki verður þörf fyrir að fullnýta þær heimildar.

Togararnir raða sér að vanda í efstu sætin yfir þorskveiðina, en tveir línubátar eru komnir með yfir 2.000 tonn. Aflahæsti togarinn er Málmey SK með 4.185 tonn og sá eini sem er yfir 4.000 tonnunum samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Næstu togarar eru Hjalteyrin EA með 3.842 tonn, Björgvin EA með 3.760 og Sólbakur EA með 3.155 tonn. Klakkur SH er með 2.929 tonn, Snæfell EA með 2.875 tonn, Sirrý ÍS með 2.693 tonn, Steinunn SF með 2.651 tonn, Anna EA með 2.310 tonn, Páll Pálsson ÍS með 2.184 tonn, Berglín GK með 2.155 og Sturla GK með 2.049 tonn.

Deila: