Eyjarnar fiska vel

Deila:

Vestmannaey VE og Bergey VE fiskuðu afar vel í júlímánuði sl. Samtals fengu skipin rúmlega eitt þúsund tonn í mánuðinum í 21 veiðiferð. Nær allan mánuðinn voru þau að veiðum vestur af landinu og var aflinn mestmegnis ýsa en að auki veiddu skipin helst þorsk og karfa. Landað var í Vestmannaeyjum og á Grundarfirði. Er þetta mun betri afli en í júlímánuði í fyrra en þá fluttu Eyjarnar um sjö hundruð tonn að landi. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Aflinn af skipunum fer víða. Ufsinn er unninn í Eyjum, ýsan fer að drjúgum hluta til vinnslu á Dalvík og þorskurinn á Akureyri. Annars er aflinn fluttur út í gámum og fer í ríkum mæli til Englands en karfinn fer til Þýskalands.

Í byrjun júlímánaðar var tekið fjögurra sólarhringa helgarfrí vegna goslokahátíðar og síðan var að sjálfsögðu tekið sex sólarhringa þjóðhátíðarfrí um verslunarmannahelgina. Að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra héldu Eyjarnar til veiða á mánudagskvöld og lönduðu góðum afla í gær, mestmegnis ýsu og karfa. Ýsan fékkst austur á Höfða en karfinn var tekinn við bæjardyr Eyjamanna, í Reynisdýpi og Háfadýpi.

Á myndinni er landað úr Vestmannaey.

Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson.

 

 

Deila: