Beitir með 500 tonna makrílhol

Deila:

Síðdegis í fyrradag kom Beitir NK að vaðandi makríl á Langabanka sunnan við Hvalbakinn. Það kraumaði í sjónum á stóru svæði á bankanum og austur- og norðaustur af honum. Þarna virtist mikið af fiski vera á ferðinni. Beitismenn tóku eitt hol um fimm leytið, drógu í hálftíma og fengu 500 tonn.

Á mælinum sést mynd af torfunni sem Beitir togaði í gegnum síðdegis í gær. Framan við skipið sést vaðandi makríll. Ljósm: Tómas Kárason

Á mælinum sést mynd af torfunni sem Beitir togaði í gegnum síðdegis í gær. Framan við skipið sést vaðandi makríll. Ljósm: Tómas Kárason

Tómas Kárason skipstjóri segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að þeir hafi í reynd rétt dýft niður trollinu en þarna hafi fiskurinn verið þéttur  og í miklu magni.

„Þetta var alveg hreinn makríll sem fékkst og fiskurinn var afar stór, 526 grömm að meðaltali. Þegar komið var á svæðið heyrðist áberandi hviss hljóð þegar gengið var út á brúarvænginn enda spriklandi fiskur í yfirborðinu hvert sem litið var. Þetta voru heilu breiðurnar. Við vorum fyrstir á svæðið og brátt voru komin fleiri skip. Sum þeirra fengu góðan afla á stuttum tíma en önnur fengu lítið. Eftir þetta eina hol gerðum við hlé á veiðum enda er nú verið að landa úr Berki í fiskiðjuverið í Neskaupstað og Bjarni Ólafsson bíður löndunar.

Það er með ólíkindum, miðað við fiskinn sem sást í gær, að nú er lítið um að vera hjá skipunum. Það gengur á ýmsu á makrílveiðunum núna,“ sagði Tómas.

Beitir NK að dæla 500 tonna holinu í gær. Ljósm: Heimir Haraldsson

Beitir NK að dæla 500 tonna holinu í gær. Ljósm: Heimir Haraldsson

Deila: