Laxalengja með eggjum og aspas

Deila:

Við vorum að gramsa í uppskriftaskúffunni um daginn, en þar er af finna mikið safn af eldri uppskriftum að virkilega góðum réttum. Stundum finnst okkur gott að hverfa aðeins til baka og rifja upp gamla góða rétti sem við munum eftir úr foreldrahúsum. Þessa uppskrift fundum við á einblöðungi úr möppu frá Vöku-Helgafelli sem heitir Nýir eftirlætisréttir.
Okkur finnst þetta flottur réttur til að gæða sér á að kvöldi til við kertaljós og með góða tónlist í græjunum og hafa það notalegt.

Innihald:

1 dl hrísgrjón
3 egg harðsoðin
200 g reyktur lax
200 g smjördeig, tilbúið
100 g majónes
100 g sýrður rjómi
1 tsk karrí
pipar á hnífsoddi
graslaukur
100 g niðursoðinn aspas
1 egg.

Aðferðin:

Sjóðir hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakka og kælið að mestu. Harðsjóðið eggin, kælið og saxið. Skerið laxinn í teninga eða strimla.

Hrærið saman majónes og sýrðan rjóma og kryddið með karrí, pipar og söxuðum graslauk.

Þíðið smjördeigið, ef það er frosið, og fletjið það út á hveitistráðu borði, um 40×30 sm. Skerið frá þrjár mjóar ræmur fyrir fléttuna, ef vill. Setjið hrísgrjónin langsum á miðjuna. Setjið söxuðu eggin og laxabitana þar ofan á, síðan sósuna og loks aspasinn.

Brjótið hliðar smjördeigsins yfir fyllinguna, búið til fléttu úr smjördeigsræmunum og leggið ofan á. Penslið með eggi.

Bakið í heitum ofni í 20-25 mínútur.

Berið fram með kaffi, köldum bjór eða léttvíni.

 

Deila: