10.500 tonnum meira til skiptanna á nýju fiskveiðiári

Deila:

Mestur kvóti á nýhöfnu fiskveiðiári fer til Reykjavíkur sé tekið mið af heimahöfn fiskiskipanna. Þangað fara 12,3% heildarinnar. Grindavík er í öðru sæti með 10,8% og í þriðja sæti eru Vestmannaeyjar með 9,9%. Af einstökum fyrirtækjum trónir HB Grandi efst á blaði með 9,5% af heildinni. Samherji kemur n´st með 5,9% og loks Þorbjörn hf. Með 5,5%.  Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Sólberg ÓF 1, en það fær 9.716 þorskígildistonn eða 2,6% af úthlutuðum þorskígildum.

Aukning í þorski, ýsu og ufsa

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. Að þessu sinni er úthlutað 375.589 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 365.075 þorskígildistonn í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð. Aukning á milli ára samsvarar því um 10.500 þorskígildistonnum.

Úthlutun í þorski er um 203 þúsund tonn og hækkar um tæp 9.000 tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn er 31.732 tonn og hækkar um 4.200 tonn og er sama aukning í ufsakvótanum. Tæplega 1.700 tonna samdráttur er úthlutun á gullkarfa og tæplega 1.100 tonna samdráttur í  djúpkarfa. Þá er úthlutun í íslenskri sumargotssíld 29.000 tonnum lægri en í fyrra. Úthlutað aflamark er alls 422.786 tonn sem er tæplega 6.600 tonnum minna en á fyrra ári.

Úthlutun í deilistofnum síðar á árinu

Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski, benda má sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. Þess vegna á heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra eftir að breytast í kjölfar slíkra úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.

Alls fá 489 skip úthlutað aflamarki að þessu sinni samanborið við 499 á fyrra fiskveiðiári. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Sólberg ÓF 1, en það fær 9.716 þorskígildistonn eða 2,6% af úthlutuðum þorskígildum.

Úthlutun eftir fyrirtækjum

Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 87,8% af því aflamarki sem úthlutað er og er það 1,2 prósentustigum hærri tala en í fyrra. Alls fá 372 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða um 26 aðilum færra en í fyrra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 9,5% af heildinni, næst kemur Samherji með 5,9% og þá Þorbjörn hf. með 5,5%. Þetta er sama röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár.

Úthlutun eftir heimahöfnum

Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert mikið meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 12,3% af heildinni samanborið við 12,1% í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 10,8% af heildinni samanborið við 10,6% á fyrra ári. Skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum ráða fyrir 9,9% úthlutunarinnar eins og í fyrra.

Hlutfall sem fer til skipa hjá hverri höfn fyrir sig breytist í flestum tilvikum eitthvað og má rekja það til breytinga á þorskígildisstuðlum sem og tilfærslu aflahlutdeilda á milli skipa með ólíka heimahöfn. Vísað er til yfirlitstöflunnar sem tengill er í hér að neðan.

Úthlutun eftir útgerðarflokkum

Bátar með krókaaflamark eru nú 277 eins og í fyrra. Skipum í aflamarkskerfinu fækkar um 10 á milli ára og eru nú 212. Athygli vekur að  togurum fækkar enn , þetta árið um  fimm en þeim hefur fækkað um 17 frá upphafi fiskveiðiársins 2013/2014. Togararnir eru nú 39 í íslenska flotanum. Samkvæmt útgerðarflokkun Fiskistofu fá skuttogarar úthlutað rúmum 206 þúsund tonnum af því heildaraflamarki sem úthlutað var að þessu sinni og skip með aflamark fá 165 þúsund tonn. Smábátar með aflamark og krókaaflamarksbátar fá tæp 51.700 tonn. Vakin er athygli á því að krókaaflamarksbátar fá eingöngu úthlutað þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, löngu, keilu og steinbít.

Skel- og rækjubætur

Alls 2.042 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi árs sem skel- og rækjubótum en það er um 500 tonnum meira en í fyrra og fara þau til 40 báta samanborið við 30 báta á fyrra ári.

Hér má sjá heildarskrá yfir úthlutun aflamarks til einstakra skipa, rækju- og skelbætur ársins og yfirlitsskjal þar sem hægt er að skoða úthlutunina út frá margvíslegum sjónarhornum.

Deila: