Lax, bok choy og núðlur í engifersoði

Deila:

Oft virðist langt milli austurs og vesturs en í raun er ekkert þar á milli nema og. Það sama á við um austurlenska matargerð og íslenskt hráefni. Þegar það er komið saman er það bara miðja alheimsins eða þannig. Við fundum bæklinginn „Fiskmeti fyrir öll tækifæri“ á bókamarkaði og þar var þessa uppskrift að finna, en hún er eins og aðrar uppskriftir í bæklingnum þýddar úr ensku og ættaðar frá Ástralíu.  Þýðandi er Jón Jóhannesson og útgefandi Altunga. Við mælum með því að lesendur kvótans reyni þessa fínu uppskrift.

Innihald:

2 tsk dashi duft (austurlenskar matvörubúðir)
2 msk engifer, skorið í þunna strimla
8 vorlaukar, þunnt sneiddir á þverveginn
750 g bok choy, (má nota kínakál)
3 tsk japönsk sojasósa
200 g soba núðlur (austurlenskar matvörubúðir)
2 mk jarðhnetuolía
6 bitar af laxaflökum, án roðs
kóríanderlauf
limebátar til skrauts

Aðferð:

Setjið dashi duftið og 1,5 lítra af vatni í stóran pott. Hitið að suðu og bætið engifer, vorlauk og bok choy út í. Lækkið hitann og mallið í 5 mín. undir loki eða þar til kálið er orðið mjúkt. Hrærið sojasósunni saman við, takið af hitanum og haldið heitu.

Á meðan eru núðlurnar soðnar í miklu vatni í 1 mín. eða þar til þær eru mátulega mjúkar. Látið renna vel af þeim og haldið heitum.

Hitið olíuna á stórri steikarpönnu og steikið laxinn í 3 mín. á hvorri hlið. Athugið að hann á að vera léttsteiktur í miðjunni. Skiptið núðlunum á sex djúpa diska, bætið kálinu við og ausið soðinu yfir. Setjið laxastykki ofan á núðlurnar og kryddið að smekk með salti og pipar. Stráið kóríanderlaufum yfir og berið fram með limebátum.

 

Deila: