Saltfiskur að hætti Ítala

Deila:

„Er ekki kominn tími til að breyta út af íslensku saltfisksoðningunni og prófa suðrænar aðferðir við matseldina? Hér gefst gott tækifæri til þess. Suður við Miðjarðarhaf þykir saltfiskur líkt og hér mikill herramannsmatur en þá yfirleitt í þeim holla félagsskap sem hér er sýnt, með miklu grænmeti og olíu í stað smjörsins.“
Svo segir í inngangi að uppskrift dagsins, sem fengin er úr einblöðungi frá Vöku-Helgafelli í útgáfu uppskrifta undir fyrirsögninni Af bestu lyst.

Innihald:

700 g saltfiskur (mjög vel útvatnaður)
1 laukur
2 sellerístönglar
2 gulrætur
4 hvítlauksrif
1 búnt steinselja
3 msk ólífuolía
2 búnt vorlaukar eða 2 blaðlaukar
2 dl vatn
1 dós niðursoðnir tómatar
1 búnt basilíka

Aðferð:

Skerið lauk, sellerí, gulrætur og saxið steinselju frekar smátt. Merjið hvítlauk. Hitið olíu og mýkið grænmetið í olíunni við vægan hita í 20 mínútur eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.
Skerið vorlaukinn í strimla, bætið saman við og mýkið áfram í 10 mínútur. Hitinn verður að vera vægur því ef grænmetið brennur verður sósan ónýt.
Á meðan sósan mallar er saltfiskurinn skorinn í litla teninga.
Hellið vatninu út í sósuna ásamt niðursoðnu tómötunum og hrærið. Blandið fiskbitunum varlega út í grænmetissósuna og sjóðið í 15 mínútur. Bætið smátt saxaðri basilíku út í síðustu 5 mínúturnar. Gott er að útbúa þennan rétt fyrirfram og hita síðan upp, við það verður hann bara betri.
Berið fram með ferskur salati og grófu brauði.

Deila: