Börkur veiðir makríl í nót

Deila:

Börkur NK er á landleið með 630 tonn af makríl sem fékkst í Smugunni, nánar tiltekið 280 mílur austur af landinu rétt við færeysku lögsöguna. Hér er um tímamót að ræða því aflinn fékkst í nót en nótaveiðar á makríl hafa ekki verið reyndar af íslenskum skipum frá því að makrílveiðar hófust fyrir alvöru fyrir áratug eða svo.

Aflinn fékkst í tveimur köstum og skilaði fyrra kastið 540 tonnum. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki er að vonum ánægður með árangur veiðiferðarinnar. „Við vitum ekki betur en að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskt skip veiðir makríl í nót frá því að makrílveiðitímabilið hér við land hófst. Makríllinn hefur verið veiddur í flotvörpu hingað til. Á áttunda áratug síðustu aldar fengu einhver íslensk síldarskip makríl í nót þegar þau voru að veiðum í Norðursjó og einhvern tímann síðar voru gerðar árangurslitlar tilraunir til makrílveiða í nót í færeyskri lögsögu. Það má því segja að þessi veiðiferð okkar marki viss tímamót. Fullyrt er að nótamakríll sé mun betra hráefni en makríll veiddur í flotvörpu enda er beðið eftir hráefninu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað með miklum spenningi. Ég veit að japanskir kaupendur hafa til dæmis greitt hærra verð fyrir nótamakrílinn,“ sagði Hálfdan í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Börkur með 540 tonna makrílkastið á síðunni. Ljósm: Hálfdan Hálfdanarson

Börkur með 540 tonna makrílkastið á síðunni. Ljósm: Hálfdan Hálfdanarson

Hálfdan segir að snúið sé að eiga við makrílinn þegar veitt er í nót. „Við búmmuðum þrisvar áður en við fengum afla. Fiskurinn er svo sprettharður og erfiður viðureignar að það þarf allt að ganga upp svo árangur náist. Menn þurfa að læra á þetta eins og allt annað. Þegar þrengt er að fiskinum í nótinni hefst heldur betur fjör. Hann stendur nánast upp á endann og einungis sporðurinn í sjónum. Það heyrist hávært skvamp og mikil læti enda er makríllinn kraftmeiri og öflugri en aðrir uppsjávarfiskar,“ sagði Hálfdan að lokum.

Börkur mun væntanlega koma til Neskaupstaðar á milli klukkan átta og níu í kvöld og gert er ráð fyrir að vinnsla á nótamakrílnum hefjist þá fljótlega. Beitir NK kom í nótt til Neskaupstaðar með tæplega 700 tonn af fallegri síld sem fékkst í Norðfjarðardýpi og utan kantsins útaf Norðfjarðardýpi. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra var mikið af síld að sjá á þessum slóðum.

Efri myndina tók Ísak Fannar Sigurðsson

Deila: