Strandveiðibátur dreginn í land öðru sinni á vertíðinni

Deila:

Björgunarsveitir frá Sauðárkrók og Hofsósi ásamt björgunarskipinu Sigurvin á Siglufirði voru kallaðar út í gær vegna strandveiðibáts sem var með óvirkt stýri. Björgunarbáturinn Skafti og Sigurvin fóru á vettvang og drógu bátinn til Siglufjarðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Aflvana strandveiðibátur var sömuleiðis dreginn frá Garðskaga síðdegis í gær, til hafnar í Sandgerði. Skipverja hafði tekist að varpa akkeri til að forðast það að reka í land. Samkvæmt upplýsingum Auðlindarinnar var vélarrými bátsins hálffullt af sjó en þetta mun vera í annað sinn sem báturinn er dreginn til hafnar á yfirstandandi strandveiðivertíð.

Á sama tíma barst tilkynning frá strandveiðibát út á Rifi, sem þarfnaðist aðstoðar. þegar viðbragðsaðilar voru að leggja úr höfn barst afturköllun þar sem nærliggjandi bátur hafði komið til aðstoðar.

Myndin er úr úr safni frá Sandgerðishöfn.

Deila: