Þorgerður Katrín ræddi verndun hafsins
Ákall og brýning um að þjóðir heims verði að vernda hafið fyrir mengun og ofveiði og alvarleg áhrif loftslagsbreytinga á eyríki sem m.a. koma fram í súrnun hafsins var kjarninn í ræðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á alþjóðlegu ráðstefnunni „Our Ocean“ sem haldin er á Möltu 5.-6. október.
Þorgerður fór jafnframt yfir þær skuldbindingar sem Ísland hefur tekist á hendur en þær lúta meðal annars að því að minnka losun CO2 með aukinni notkun vistvænna orkugjafa m.a. á skipaflotanum, að koma á veiðireglu fyrir helstu nytjastofna hafsins og jafnframt að kortleggja efnahagslögsögu landsins og gera gögnin aðgengileg öllum.
Ráðstefnan „Our Ocean“ er haldin með þátttöku og skuldbindingu fjölda þjóðarleiðtoga, ríkisstjórna, stórfyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja og umhverfissamtaka og er markmið hennar að standa vörð um lífríki hafsins og tryggja með því „bláan hagvöxt“ með sjálfbærni að leiðarljósi.