Minni uppsjávarafli

Deila:

Fiskistofa hefur tekið saman yfirlit yfir afla fyrstu átta mánuði ársins í  norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna. Það sem af er ári er afli í íslenskra skipa í þessum deilistofnum minni en á sama tíma í fyrra.

Ágæt aflabrögð í kolmunna

Það sem af er ári hafa íslensk skip veitt 183 þúsund tonn af kolmunna.  Á sama tíma í fyrra var aflinn 162 þúsund tonn. Mestur afli á yfirstandandi vertíð er veiddur í lögsögu Færeyja eða 158,9 þúsund tonn og í íslenskri lögsögu 17,1 þúsund tonn. Aflahæsta skipið í kolmunna á ofan-greindu tímabili er Víkingur AK-100 með 15,4 þúsund tonn og Bjarni Ólafsson AK-70 með 15,0 þúsund tonn.

Litlu minni makrílafli en á síðasta ári

Makrílvertíð er á síðustu metrunum og er heildarafli íslenskra skipa á fyrstu átta mánuðum ársins 112,9 þúsund tonn. Þetta er nokkuð meiri afli en á vertíðinni 2016 þegar hann var 93 þúsund tonn. Íslensk skip fengu 105 þúsund tonn eða 93% aflans í íslenskri lögsögu en 6,5 þúsund tonn í grænlenskri lögsögu.

Aflahæsta skipið á makrílveiðunum á vertíðinni var einnig Víkingur AK-100 með 7,2þúsund tonn. Næst kemur Ásgrímur Halldórsson SF-250 með 6,5 þúsund tonn og Vilhelm Þorsteinsson EA-11 með 6,1 þúsund tonn.

Síldarafli minni en á síðasta ári

Heildarafli íslenskra skipa á fyrstu átta mánuðum ársins er nokkuð minni en á síðasta ári. Íslensku skipin höfðu landað 9,2 þúsund tonn á yfirstandandi vertíð miðað við 14,8 þúsund tonn á sama tíma í fyrra. Þar af hafa íslensku skipin fengið 25,2 þúsund tonn úr íslenskri lögsögu eða 99,8% af afla úr norsk-íslenska síldarstofninum.

 

Deila: