Marel og Fisktækniskólinn undirrita samning á sjávarútvegssýningunni

Deila:

Tæknistigið í íslenskum fiskvinnslum er að aukast með tilkomu nýrrar tækni sem byggist á tölvustýrðum tækjum og línum. Það er því aukin þörf á sérhæfðu starfsfólki í fiskvinnslu með góðan bakgrunn í tækni og hugbúnaði. Til að mæta þessari þörf hafa Marel og Fisktækniskóli Íslands í sameiningu boðið upp á tveggja anna nám síðastliðin þrjú ár sem kallast Marel vinnslutæknibraut.

Hlutverk Marel vinnslutæknis er að sjá til þess að Marel tæki og hugbúnaður í vinnslunni séu að vinna á sem skilvirkastan máta og þannig skapa aukin verðmæti. Marel vinnslutæknir á að geta allt sem tengist vinnslu á staðnum s.s. þrifið tækin, greint helstu bilanir og takmarkað umhverfisaðstæður sem hafa áhrif á virkni tækjanna.

Námið er hugsað jafnt fyrir fólk sem kemur beint úr tveggja ára grunnnámi Fisktækniskólans sem og fyrir þá sem stunda atvinnu, búa utan skólasvæðis og hafa staðist raunhæfnimat á vegum Fisktækniskólans. Samstarfsverkefnið byggist á að þróa og reka eins árs framhaldsnám við skólann sem hefur það að markmiði að útskrifa Marel vinnslutækna.

Framlag Marel felst í að sjá Fisktækniskólanum fyrir kennurum í þeim greinum sem lúta að Marel tækjum og hugbúnaði. Marel útvegar kennsluaðstöðu og aðgengi að tækjum. Framlag Fisktækniskólans felst í kennslu undirstöðuáfanga, umsýslu námsins, skipulagningu og fleira sem tengist rekstri skólans. Í því felst einnig í mat á umsækjendum í námið og sértæk námsaðstoð. Námsefnið er í sífelldri þróun og í takt við nýjungar í fiskvinnslu hverju sinni.

Báðir aðilar lýsa yfir mikilli ánægju með samstarfið síðastliðin þrjú ár. Á Íslensku sjávarútvegssýningunni, verður samstarfið staðfest til næstu tveggja ára, með undirritun sérstaks samnings þar um á bás Marel (B30) í dag 14. september.
Myndin er frá útskrift Fisktækniskólans á nemendum úr fisktæknibraut Marel.

 

Deila: