Aflaskipsins Víkings AK-100 minnst með bók

Deila:

Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út bókina „Víkingur, sögubrot af aflaskipi og skipverjum,“ sem rituð er af Haraldi Bjarnasyni en hann á að baki um fjörutíu ára feril sem blaða,- frétta- og dagskrárgerðarmaður, lengst af hjá RUV en einnig hjá héraðsfréttablöðum og tímaritum, ekki síst þeim sem tengd eru sjávarútvegi. Höfundurinn er fæddur og uppalinn á Akranesi og er af þeirri kynslóð sem segja má að hafi alist upp með aflaskipinu Víkingi.

Í bókinni segir frá aðdraganda að smíði togarans Víkings AK-100 en hann kom nýr til Akraness 21. október 1960 og skipinu er fylgt eftir allt þar til það fór í sína síðustu ferð til Grenå í Danmörku 11. júlí 2014 þar sem það var síðan rifið. Í þessa rúmu hálfu öld var Víkingur gerður út undir sama nafni og númeri frá Akranesi, fyrstu árin sem togari en síðan sem fengsælt nótaskip. Í bókinni eru viðtöl við skipverja, sem á einhverjum tíma voru um borð í Víkingi en mislengi þó og ýmsar sögur eru sagðar tengdar skipinu.

Farið er yfir stöðu atvinnumála á þeim tíma sem hugmyndir komu upp um skipakaupin og bréfaskriftir útgerðarinnar við ráðamenn og peningastofnanir vegna smíði skipsins. Í bókarlok er svo viðauki um stofnun og aðdraganda að byggingu Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, sem lét smíða skipið og gerði það út þangað til Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan var sameinuð HB&Co sem gerði út skipið þar til Grandi keypti HB&Co og til varð HB Grandi, sem gerði út Víking síðustu árin. Þá er einnig stuttur myndskreyttur kafli um komu nýs Víkings AK100 í desember 2015.

Bókarkápu prýðir málverk af Víkingi eftir myndlistarmanninn Baska, Bjarna Skúla Ketilsson, frá Akranesi, sem búsettur er í Hollandi. „Víkingur, sögubrot af aflaskipi og skipverjum“ er um 160 blaðsíður að stærð í stóru broti, litprentuð og rækilega skreytt myndum frá mörgum áhuga- og atvinnuljósmyndurum auk mynda frá skipverjum.

Deila: