„Erum öll stolt af því að vinna í fiski“

Deila:

„Hér á Dalvík er mikil þekking í fiskvinnslu og til að mynda hefur verið biðlisti eftir að komast í störf hjá okkur síðan um aldamót. Kjarninn í starfsmannahópnum hefur unnið saman í áratugi, gjörþekkir til verka og almennt erum við öll mjög stolt af því að vinna í fiski. Það er bara þannig.“

Þetta segir Sigurður Jörgen Óskarsson, yfirverkstjóri í frystihúsi Samherja hf. á Dalvík í viðtali í nýjasta tölublaði Ægis. Hann hefur stýrt vinnslunni þar frá árinu 1988 og á þeim tíma séð byltingarkenndar breytingar verða, bæði hvað varðar tækniframfarir og afurðaframleiðslu. Samherji hf. undirbýr nú byggingu nýs hátæknifrystihúss á Dalvík sem fyrirtækið boðaði fyrir nokkru og á það að rísa á næstu misserum, gangi áætlanir eftir.

Innihald blaðsins er fjölbreytt að vanda.

Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís skrifar grein sem ber heitið Skýr framtíðarsýn – miklir möguleikar;  Sagt er frá fyrirhuguðu 5.000 tonna fiskeldi í Þorlákshöfn og fjallað um aldur fiskiskipaflotans sem eldist þrátt fyrir mikla endurnýjun; Rætt er við skipstjóra hins nýja línubeitningabáts Vésteins GK, Theodór Ríkharðsson og sagt frá miklum hafnarframkvæmdum í Grindavík og fjallað um fleiri málefni veiða og vinnslu.

Deila: