Góður afli í Barentshafi þrátt fyrir þrálátar bilanir

Deila:

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú að veiðum á heimamiðum eftir langt úthald í Barentshafi og frátafa frá veiðum eftir bilanir. Að sögn Ævars Jóhannssonar skipstjóra fengust um 1.600 tonn af fiski upp úr sjó á veiðunum í Barentshafi. Þar af fengust ríflega 1.000 tonn á um 20 dögum síðari hluta janúar og fram í febrúar. Rætt er við Ævar á heimasíðu HB Granda.

,,Þetta var skrautlegt hjá okkur í Barentshafinu. Fyrsta bilunin varð í lok október og viðgerðin fór fram í Svolvær. Við komumst aftur á sjó 15. janúar og gátum verið að veiðum fram í febrúar en þá varð aftur bilun hjá okkur sem varð þess valdandi að við vorum dregnir til hafnar í Tromsö. Þaðan komumst við 15. febrúar eftir stutt stopp en þriðja bilunin varð skömmu síðar eftir að kambáslega gaf sig og þann 17. febrúar vorum við komnir til hafnar í Hammerfest. Þaðan fórum við 4. mars eftir viðgerð á veiðar í Barentshafi og aflanum, um 590 tonnum af fiski upp úr sjó, var svo landað í Reykjavík 20. mars sl.,“ segir Ævar Jóhannsson en hann stóð vaktina í öllu þessu Barentshafs- og Noregsúthaldi ef undan er skilinn sá tími sem fór í frí hér heima á meðan viðgerðum stóð.

Deila: