„Falskar ásakanir í sex ár”
„Fyrir nákvæmlega sex árum, upp á mínútu, réðist Seðlabankinn í húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík. Samkvæmt húsleitarskýrslu bankans hófst húsleitin kl. 09:15. Þá þegar voru myndatökumenn RÚV mættir fyrir utan skrifstofur Samherja á Akureyri og í Reykjavík. Klukkan 09:21 birtist frétt á heimasíðu RÚV um húsleitina og ljóst að á þeim tímapunkti var starfsfólk Seðlabankans búið að útvega fréttamönnum RÚV allar upplýsingar og þeim gefist nægur tími til að vinna fréttirnar. Tæpri klukkustund síðar birtist fréttatilkynning á heimasíðu Seðlabankans og sendi Seðlabankinn hana einnig út um allan heim. Með þessu hófst, undir stjórn Seðlabanka Íslands, ein ruddalegasta húsleit sem framkvæmd hefur verið á Íslandi.“
Svo segir í pistli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á heimasíðu félagsins frá því í morgun. Í pistlinum rekur Þorsteinn sögu málsins til dagsins í dag og tíundar þau rangindi sem hann telur félagið hafa orðið fyrir af hálfu Seðlabankans.
„Það er yfir allan vafa hafið að seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri bera ábyrgð á því að saka mig og aðra innan Samherja ranglega um brot og kæra til lögreglu að ósekju. Yfirhylmingin, þöggunin og leyndarhyggjan sem einkennt hefur málið undanfarin ár er hins vegar einnig á ábyrgð bankaráðsformanns. Bankaráð hefur lögum samkvæmt eftirlit með störfum seðlabankastjóra sem og eignum og rekstri Seðlabankans. Undir stjórn núverandi bankaráðsformanns hefur verið reynt að færa völd bankaráðs í hendur seðlabankastjóra og hlutverk bankaráðs afmarkað við það sem e.t.v. má bera saman við hlutverk áheyrnarfulltrúa.“
„Að lokum vil ég geta þess að í tilefni ársfundar Seðlabankans eftir páska mun ég skrifa enn eitt bréf um framferði helstu stjórnenda Seðlabankans en ég reikna með að ársfundurinn verði sá síðasti undir stjórn núverandi stjórnenda bankans. Tel ég fundinn því síðasta tilefni fyrir seðlabankastjóra og bankaráðsformanns að biðja okkur starfsmenn Samherja, Aserta menn og aðra þá sem hann hefur í nafni Seðlabankans ásakað ranglega í gegnum árin, afsökunar. Eftir það mun málið vera í höndum lögmanna,“ skrifar Þorsteinn Már Baldvinsson.
Pistilinn má lesa í heild á slóðinni http://www.samherji.is/is/frettir/falskar-asakanir-i-sex-ar