Mikill afli en minni verðmæti

Deila:

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. miðvikudag var ítarlega farið yfir rekstur fyrirtækisins og stöðu. Þá var þróun starfseminnar síðustu ár rakin og mjög áhugaverðar upplýsingar birtar. Afli skipa fyrirtækisins á árinu 2017 var mun meiri en árið áður en skýrt kom fram að verðmætin eru mun minni.

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fer yfir rekstur og stöðu fyrirtækisins á aðalfundinum sl. miðvikudag. Ljósm: Hákon Ernuson

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fer yfir rekstur og stöðu fyrirtækisins á aðalfundinum sl. miðvikudag. Ljósm: Hákon Ernuson

Þegar þróun bolfiskveiða hjá skipum félagsins er skoðuð kemur fram að veiðarnar fóru vaxandi ár frá ári á árunum 2010- 2015 enda festi fyrirtækið kaup á bolfiskkvóta og fyrirtækjum sem réðu yfir slíkum kvóta á  á því tímabili. Á árinu 2015 var hápunkti náð hvað viðkemur verðmætum. Þá veiddu bolfiskskip Síldarvinnslunnar um 20.000 tonn og verðmæti aflans voru tæplega 6 milljarðar króna. Síðan hafa verðmætin farið minnkandi með afgerandi hætti og á síðasta ári námu þau einungis rúmlega 4 milljörðum þrátt fyrir að afli væri svipaður og á árinu 2015. Kemur þetta skýrt fram á meðfylgjandi skýringarmynd.

SVN Veiði_bolfiskskipa

Hvað viðkemur uppsjávarveiðunum má segja að þróunin sé svipuð hvað aflaverðmæti varðar en veiðarnar einkennast þar af meiri sveiflum. Verðmætin fóru vaxandi á árunum 2010-2013 og á árinu 2013 náðu þau 5,3 milljörðum króna. Verðmætin féllu niður í 4 milljarða árið 2014 en hækkuðu á ný upp í rúmlega 4,5 milljarða árið 2015. Eftir það hefur verðmætakúrfan sigið niður á við og á síðasta ári námu verðmætin einungis 3,7 milljörðum þrátt fyrir að aflinn væri jafn mikill og í bestu árum eins og fram kemur á meðfylgjandi skýringarmynd.

SVN Veiði_uppsjávarskipa

Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja og sjómanna hefur breyst í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan og eins hefur þessi þróun haft mikil áhrif á afkomu þeirra sveitarfélaga sem byggja á sjávarútvegi.

Deila: