Sporðskurður skilar færri göllum og eykur nýtingu og afköst
Sporðskurðarvél Unnsteins Guðmundssonar, Baadermanns hjá G.Run á Grundarfirði vekur vaxandi athygli. Stóru fyrirtækin sem framleiða flökunarvélar og aðrar fiskvinnsluvélar hafa sýnt vélinni áhuga og mæla með notkun hennar. Reynsla G.Run af notkun vélarinnar er afar góð, göllum í flökun hefur snarfækkað, afköst aukist verulega og nýting sömuleiðis. Kostir vélarinnar eru því ótvíræðir.
„Okkur gekk nokkuð vel á sjávarútvegssýningunni nú. Fengum töluvert af góðum heimsóknum, menn sem eru lengi búnir að vera að pæla í vélinni, en hafa ekki verið alveg tilbúnir til að stökkva á bátinn í fyrstu. Svo kemur þetta svona smátt og smátt,“ segir Unnsteinn í samtali við Kvótann.
Rúmlega tugur véla í notkun
„Við erum búin að vera með þessa vél á markaðnum í hátt í þrjú ár, höfum lítið verið að kynna hana og auglýsa. Þetta er langhlaup og menn eru farnir að hafa meiri og meiri trú á vélinni og hafa heyrt frá öðrum, sem eru að nota þessar vélar með góðum árlangri. Það er rúmlega tugur véla þegar í notkun í fiskvinnslunni. Ég geri ráð fyrir að reynslan af þeim sé svipuð og hjá G.Run. Þar breytti þessi litla einfalda vél alveg ótrúlega miklu, þetta einfalda verk að sporðskera fisk fyrir hausun og flökun á fiski. Það lækkaði gallatíðni, stopp á flökunarvélum og minnkaði snyrtingu í kjölfarið og þetta fer betur með fiskinn þannig að minna los myndast í honum við vélflökunina og sömuleiðis roðdrætti og öðru,“ segir Unnsteinn.
Hann segir að vélin hafi skilað miklu meiru en hann lagði af stað með í upphafi. Hugsunin í upphafi var að losna við mestu gallana í vélflökun, sem mynduðust í frásköfuhnífum, sem varð til þess að flakið skarst ekki alveg frá í sporðrótina. Það stakkst þá inn í sköfuhnífa og og bretti upp á flökin og þá myndaðist los, auk þess að galli kom í þunnildi. Það sem svo gerðist, og segir sig sjálft að fiskurinn styttist um 15 til 17% við sporðskurðinn, og því varð innmötunin á flökunarvélarnar miklu auðveldari og sporðurinn er ekki lengur að stingast út fyrir stýringar.
Auðveldari innmötun á flökunarvélar
„Áður var það dýrt og tímafrekt starf að þjálfa upp fólk á flökunarvélarnar. Nú getum við nærri því sett hvaða viðvaning sem er á flökunarvélarnar. Það verður svo miklu auðveldara að raða fiskinum inn á vélarnar. Nú er undantekning að fá ónýt flök frá vélunum eins og var. Hnífarnir voru að fara í gegnum hryggsúluna og þá voru þeir hnífar ónýtir. Þetta byggist allt á að hafa gott bit í hnífum. Það er það sem skilar góðri nýtingu og áferðafallegri flökum. Hérna áður fyrr þurfti ég að vera á stöðugum hlaupum til að skipta um hnífa en nú þarf varla að líta á hnífa í flökunarvél, sem búin er að flaka 18 tonn. Þeir eru enn vel beittir eftir það.“
Sporðskurðurinn skilar mun meiri nýtingu og reynslan hjá G.Run eftir fyrstu sex mánuðina er að hlutfall í blokk og marning í fiskinum hefur lækkað um 20%. Afköstin á fyrstu vikunni sem byrjað var að sporðskera fóru úr 12 tonnum upp í 18 tonn. Bara miðað við þá afkastaaukningu var vélin að borga sig upp á 300 til 400 tonnum upp úr sjó. Hún borgar sig því upp á ótrúlega skömmum tíma.
Flaka engan fisk án sporðskurðar
„Við erum nú búnir að keyra þessa vél í á fjórða ár. Við flökum engan fisk án þess að hann sé sporðskorinn fyrst. Stór þáttur í þessari miklu afkastaaukningu var það að flökunarvélarnar eru nánast hættar að stoppa og fiskurinn að festast í þeim. Þarf af leiðandi minnkaði slysahætta hjá þeim sem annars þurftu að losa flökin úr vélunum. Þar sem flökin komu öll eins í gegn og sporðurinn ekkert tættur, þurfti ekki lengur að snyrta sporðinn og þegar þau handtök voru frá, jókst hraðinn við snyrtinguna verulega. Þó manni finnist það lítil aðgerð að skera sporð af fiski, skilar það ótrúlega miklu, í snyrtingu, nýtingu og gæðum,“ segir Unnsteinn.
Sporskurðarvélin er sett upp framarlega í vinnslulínunni. Til dæmis við flokkun eða við hausara. Í tilfelli G.Run var vélin sett upp við hausara og þar sem þessi aðgerð er einföld, tafði hún innmötun inn á hausarann ekki neitt. Það kostar kostar því ekki aukastarf og í sumum tilfellum getur þetta sparað mann á roðflettivélum, því flutningur úr flökun yfir á roðvél verður miklu betri.
Vélin vekur sífellt meiri athygli risanna í framleiðslu fiskvinnsluvéla. Þannig hafa framleiðendur flökunarvéla sýnt sporðskurðarvélinni áhuga og mæla með henni. „Það er alveg sama hvaða gerð flökunarvéla er notuð. Sporðskurðarvélin leysir ákveðin vandamál hjá þeim öllum. Þetta er alltaf sama lögmálið.
Kæmi til greina að selja
Það er erfitt að vera aðeins með eina vél í kynningu, bæði dýrt og tímafrekt svo það kemur alveg til greina að selja framleiðsluréttinn. Þetta gæti hins vegar verið mjög góður kostur fyrir stærri fyrirtæki sem eru með flökunarlínur að bæta svona vél við línurnar hjá sér. Ég smíðaði fyrstu gerðina af vélinni sjálfur og hún reyndist svo vel að ég ákvað að fara út í þetta sjálfur og stofna fyrirtækið 4Fish um vélina með konunni minni. Af því ég er í annarri vinnu læt ég smíða vélina og setja saman annars staðar og valdi til þess smiðju í Garðabæ, Geislatækni. Það er mjög flott smiðja þar sem allt stál er laser-skorið og vinnubrögð mjög vönduð. Það skilar sér í því að þær eru ekkert að bila og skila sínu verki mjög vel,“ segir Unnsteinn Guðmundsson.
Á meðfylgjandi slóð má sjá hverju vélin skilar: