Gott skip með mikla veiðigetu

Deila:

Blængur kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi eftir vel heppnaða veiðiferð. Skipið millilandaði á Akureyri 16. september og fóru þá í land um 10.000 kassar. Síðan er gert ráð fyrir að landa á morgun í Neskaupstað ef veður leyfir, en löndun fer helst ekki fram í mikilli rigningu. Heildarverðmæti aflans í veiðiferðinni er tæplega 110 milljónir króna.

Theodór Haraldsson var skipstjóri fyrri hluta veiðiferðarinnar en eftir millilöndun settist Steinþór Hálfdanarson í skipstjórastólinn, en Steinþór hefur ekki verið með Blæng áður. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Steinþór og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið: „Það má segja að hún hafi gengið vel, en þó var tíðin heldur rysjótt síðustu dagana. Uppistaðan í aflanum er karfi en síðan er töluvert af ufsa og þorski. Við vorum mest á Vestfjarðamiðum, á Víkurálshorni í svonefndri Nætursölu og á Halanum. Undir lokin tókum við einn sólarhring á Mánáreyjahrygg og enduðum síðan á Langanesgrunni og Digranesflaki. Það fer ekkert á milli mála að Blængur er gott skip með mikla veiðigetu. Skipið er kröftugt og gott að fiska á það. Síðan er alltaf verið að auka afköstin á vinnsludekkinu og lagfæra það þannig að mér líst vel á útgerð þessa skips,“ sagði Steinþór.
Ljósmynd Hákon Ernuson.

Deila: