Vilja ala lax á Kópaskeri

Deila:

Fiskeldi Austfjarða vill hefja fiskeldi á landi á Röndinni á Kópaskeri. Svæðið er skilgreint sem náttúruverndarsvæði og breyta þarf aðalskipulagi ef fiskeldi á að rísa. Sveitarstjóri Norðurþings segir að fiskeldi geti eflt atvinnulífið á svæðinu. Skipulagsfulltrúi Norðurþings er bjartsýnn á að framkvæmdin verði að veruleika, en segir óvenjumargar umsagnir hafa borist. Frá þessu er greint á ruv.is og segir þar ennfremur:

Verkfræðistofan Verkís vann skýrslu um breytingu á aðalskipulagi Norðurþings fyrir árin 2010 til 2030 og nýtt deiliskipulag, fyrir Norðurþing og Fiskeldi Austfjarða. Breytingarnar snúa að fyrirhuguðu fiskeldi fyrirtækisins Fiskeldi Austfjarða á Röndinni svokölluðu á Kópaskeri.

Skilgreint náttúruverndarsvæði

Til þess að fiskeldið verði að veruleika þarf að breyta aðalskipulagi og skilgreina lóðina sem iðnaðarsvæði í stað athafnasvæði. Þá þarf að vinna deiliskipulag svæðisins og gera umhverfismat en svæðið er skilgreint sem náttúruverndarsvæði á náttúruminjaskrá. Þá hafa fornleifar aldrei verið skráðar á Kópaskeri og meta þarf hvort ástæða sé til þess að vinna deiliskrá fornminja fyrir svæðið. Röndin eru sjávarbakkar frá Kópaskeri suður að Snartarstaðalæk. Þar er jarðmyndun frá lokum ísaldar, sjávarset með skeljum og jökulruðningur. Svæðið er skilgreint sem „aðrar náttúruminjar” í náttúruminjaskrá og samkvæmt lögunum skal leita
umsagnar og tilkynna Umhverfisstofnun um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum.

Getur eflt stöðuna í Öxarfirðinum

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir í samtali við fréttastofu að á svæðum þar sem einn aðili í byggðalagi heldur uppi nær atvinnulífinu einvörðungu, eins og Fjallalamb í þessu tilviki, eigi alltaf að leita leiða til þess að styrkja stoðirnar. Þetta sé eitt atriði sem gæti eflt stöðuna í Öxarfirðinum.

Óvenjumargar ábendingar

Gaukur Hjartarson, skipulags- og byggingafulltrúi Norðurþings, segir kynningu á skýrslunni nú að ljúka. Hann er nokkuð bjartsýnn á að þetta fiskeldið verði að veruleika.

„VIð sendum þessa kynningu á býsna margar stofnanir og erum búin að fá óvenjumikið um ábendingar varðandi skipulagsvinnuna,” segir hann. „Sem útaf fyrir sig er bara hið besta mál.”

Gaukur segir að tillögur að skipulagi geti verið tilbúnar til kynningar í nóvember, ef allt gengur að óskum.

Eldi á landi 

Fiskeldi Austfjarða vill byggja tvö hundruð fermetra þjónustuhús, kerjapall á landi um 5.200 fermetra að stærð og annað eins svæði til síðari stækkunar. Eldisstöðin verður á landi, syðst á Röndinni við ósa Snartarstaðarlækjar. Í dag liggur útivistarstígur meðfram sjávarsíðunni að ósunum og þaðan í gegnum náttúruverndarsvæðið og tengist stígakerfi byggðarinnar við aðkomu bæjarins.

Í kafla um varnir gegn mengun segir að grunnvatn haldist ómengað, vistkerfi áa og vatna verði ekki raskað, strandsjór haldist ómengaður og komið verður í veg fyrir mengun frá fráveitu.

Framleiðslugeta eldisins verður um tvö þúsund tonn af laxi á ári. Gert er ráð fyrir allt að 16 útikerum, allt að 32.000 rúmmetrar að samanlagðri stærð. Einnig er gert ráð fyrir tíu sextán tommu borholum sem boraðar verða eftir borholusjó ásamt veitulögnum þeim fylgjandi. Á svæðinu kemur upp volgur sjór sem nýtist vel til eldisins. Gert er ráð fyrir að fiskur verði afhentur út í brunnbát sem leggst við bryggju á Kópaskeri.

 

Deila: