Fékk verðlaun fyrir fallegan fisk

Deila:

Hafsteinn Björnsson sem rær á strandveiðibátnum Villa-Birni SH 148 frá Rifi fékk viðurkenningu fyrir Fallegan fisk 2017. Fræðsla og þekkingarmiðlun er endalaust viðfangsefni. Nauðsynlegt er að ástunda stöðuga fræðslu og þekkingarmiðlun um góða aflameðferð.
Tvö síðastliðin sumur hefur Matís og Landssamband smábátaeigenda haldið úti verkefninu „Fallegur fiskur“ þar sem vakin er athygli á mikilvægi góðrar meðferðar á afla. Um verkefnið er fjallað á fésbókarsíðu verkefnisins.

Meðal aðgerða hefur verið ljósmyndasamkeppni um fallegasta fiskinn þar sem þátttaka fólst í því að senda inn myndir af góðri meðferð afla, að þessu sinni var ákveðið að veita Hafsteini Björnssyni frá Rifi viðurkenningu. Hafsteinn rær á strandveiðibátnum Villa-Birni SH 148.

Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís, brá sér af bæ og heimsótti Hafstein við höfnina á Rifi til að afhenda honum fína GoPro myndavél, svo nú er von á enn fleiri myndum sem sýna fyrirmyndar vinnubrögð. Sjá má myndir Hafsteins á fésbókarsíðunni „Fallegur fiskur“.

Varðandi umfjöllun um meðferð afla gildir eins og svo margt annað að nauðsynlegt er að ástunda stöðuga fræðslu og þekkingarmiðlun um hvernig best er að verki staðið. Ef menn hafa góðar hugmyndir um hvernig best væri að koma þessum mikilvægu skilaboðum til skila þá tökum við vel í slíkt.

Í ár hófst verkefnið með því að Matís og LS sendu hitamæla ásamt fræðsluefni um meðferð afla til 1.000 aðila sem tengdust útgerð smærri báta. Það var ekki annað að heyra en að mönnum hafi litist vel á framtakið og allmargir voru hressir með að fá loksins hitamæli til að fylgjast með hitastigi aflans.

Matís og LS munu að sjálfsögðu halda áfram að vekja athygli á mikilvægi góðrar aflameðferðar áfram og þó ljósmyndasamkeppninni sé lokið þá eru myndir og ábendingar alltaf vel þegnar.

 

Deila: