Vélstjórar samþykktu samninginn

Deila:

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem undirritaður var þann 18. febrúar s.l., lauk á hádegi í dag 2017.
Á kjörskrá voru 479 félagsmenn og af þeim tóku 266, eða 55,5%, þátt í atkvæðagreiðslunni.
Já sögðu 163 eða 61,3% þeirra sem greiddu atkvæði.
Nei sögðu 98, eða 36,8%, og fimm, eða 1,9%, skiluðu auðu.
Kjarasamningurinn er því samþykktur með 61,3% greiddra atkvæða.

Guðmundur Ragnarsson formaður VM lýsir ánægju sinni með niðurstöðuna á heimasíðu félagsins:

„Kjarasamningur vélstjóra á fiskiskipum var samþykktur með afgerandi meirihluta og góðri þátttöku.
Það sem er mér efst í huga nú er að þetta er góð niðurstaða og fyrsta skrefið inn í mikla og krefjandi vinnu á samningstímanum. Það er mjög mikilvægt að allir átti sig á því að í bókunum samningsins eru mörg stór úrlausnarmál sem verður að vinna skipulega og með öguðum tímaramma.

Ef það verður ekki gert munum við lenda í annarri og ekki minni deilu í lok samningstímans.
Ég hef þá trú að SFS sé búið að átta sig á því að við verðum að finna lausnir í okkar mörgu ágreiningsmálum og muni leggja sig fram um að koma lausnarmiðaðir í þá vinnu.

Nú eru öll stéttarfélög sjómanna með samþykkta kjarasamninga þó svo það hafi staðið tæpt að enn ein deila sjómanna og útgerðanna endaði með lagasetningu. Núna er það í okkar höndum að leggja grunn að nýjum vinnubrögðum við endurnýjun kjarasamninga í þessari atvinnugrein.“

 

Deila: