Dagbjartur Einarsson látinn

Deila:

Dagbjartur Garðar Einarsson, fyrrverandi útgerðarmaður, skipstjóri og forstjóri Fiskaness hf., lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík í gær, 81 árs gamall.

Dagbjartur fæddist í Grindavík 26. júní 1936. Foreldrar hans voru hjónin Laufey Guðbjörg Guðjónsdóttir húsmóðir og Einar Jónsson Dagbjartsson skipstjóri.

Dagbjartur einarsson

Dagbjartur lauk gagnfræðaprófi frá Skógaskóla 1953 og prófi frá farmannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík 1959. Hann var farmaður hjá Eimskipafélaginu 1953-1955 og vann við sveitastörf 1955-1956. Var sjómaður á mb. Merkúr 1956-1957, stýrimaður á Þorbirni GK 1959-1963 og skipstjóri 1963-1965. Eftir það var Dagbjartur útgerðarmaður og skipstjóri á ýmsum bátum Fiskaness hf. 1966-1971 að hann fór í land. Hann var forstjóri Fiskaness hf. 1971-2001.

Fyrirtækið var burðarás í atvinnulífinu í Grindavík og gerði út stór fiskiskip, rak frystihús og verkaði skreið og síld. Fiskanes var um árabil í hópi stærstu saltfiskframleiðenda á landinu. Dagbjartur var í janúar 1991 valinn fyrsti maður ársins á Suðurnesjum hjá Víkurfréttum. Dagbjartur tók mikinn þátt í félagsmálum. Hann sat í bæjarstjórn Grindavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1970-1982 og sat einnig í ýmsum nefndum bæjarins. Þá var hann formaður Útvegsmannafélags Suðurnesja í tvö ár, í stjórn SÍF 1981-1983 og formaður 1983- 1993. Auk þess sat hann í ýmsum nefndum á vegum sjávar- útvegsins. Dagbjartur var einn helsti stuðningsmaður knattspyrnunnar í Grindavík. Hann var frístundabóndi með kindur og hesta og var á meðal frumkvöðla í hestamennsku í Grindavík. Þá var hann forðagæslumaður í bænum.

Eftirlifandi eiginkona Dagbjarts er Birna Óladóttir. Þau gengu í hjónaband 1960. Börn þeirra eru Einar flugstjóri, Elín Þóra starfsmaður Isavia, Eiríkur Óli útgerðarstjóri, Jón Gauti umboðsmaður hjá Olís og Sigurbjörn Daði viðskiptafræðingur og sjómaður. Barnabörn þeirra Dagbjarts og Birnu eru átján og barnabarnabörnin tíu talsins.

Dagbjartur og Birna keyptu Svefneyjar á Breiðafirði ásamt fleirum og áttu þar sinn sælureit. Einnig byggðu þau upp æskuheimili Birnu í Grímsey og dvöldu þar oft. Jónas Jónasson skráði sögu þeirra Birnu og Dagbjarts og birtist hún í bókinni Það liggur í loftinu, sem Skrudda gaf út árið 2009.
Mynd og texti úr Morgunblaðinu.

Deila: