Mikil tæring í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni

Deila:

 

Vegna bilunar í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni hefur skipið ekki komist af stað í rannsóknaleiðangur sem hefjast átti í liðinni viku, þar sem m.a. átti að kanna ástand rækju og smásíldar, gera umhverfisrannsóknir í fjörðum og veiðarfæratilraunir. Í ljós kom að leki var í einhverjum tanki skipsins og hafði vatn komist í olíu. Eftir mikla vinnu við leit að orsökum lekans kom í ljós mikil tæring í leiðslum, veltitanki og vinnuþilfari.

Skipið er orðið 47 ára gamalt, smíðað í Þýskalandi árið 1970. Í september sl. bilaði stjórntölva fyrir eina af vélum skipsins. Stýrisbúnaður og aðalvélar skipsins voru endurnýjaðar árið 2004 og reyndust varahlutir vera ófáanlegir, en unnt var að gera við til bráðabirgða. Sú bilun tafði loðnuleiðangur sem átti að hefjast snemma í september og fyrirséð var að tafir yrðu einnig á næsta leiðangri skipsins.

Ljóst er að viðgerð á skipinu mun taka vikur. Stofnunin hefur þegar tekið skip á leigu til að sinna rækjurannsóknum og hluta umverfisrannsókna. Hægt er að mæla síld fram eftir vetri og er stefnt að því eftir áramót. Þetta þýðir viðbótarkostnað vegna leigu skips og kostnaðar við viðgerðina, auk annars óhagræðis.

Þegar aðalvélar Bjarna Sæmundssonar voru endurnýjaðar árið 2004 var fyrirhugað að gera skipið út í 10-12 ár til viðbótar. Mjög brýnt er að fá fram ákvörðun um nýtt skip þar sem ekki er lengur hægt að treysta á Bjarna. Fjármagni sem varið er í viðgerðir á tæplega hálfrar aldar gömlu skipi er ekki sérstaklega vel varið.

 

 

 

 

 

Deila: