Minni afli og lægra verð
Makrílveiðar smábáta ollu vonbrigðum í sumar. Veiðin varð mun minni en árið áður og verð lækkaði sömuleiðis og reglugerð um makrílveiðar var óbreytt frá árinu áður. Nú skiluðu 54 bátar um 4.800 tonna afla, en í fyrra lönduðu 50 bátar 8.400 tonnum.
Þetta kom fram í ræðu Axels Helgasonar, formanns Landssambands smábátaeigenda, á aðalfundi sambandsins. „Það voru mikil vonbrigði með ákvörðun ráðherra um að setja reglugerð frá fyrri árum um makríl óbreytta í ár. Búið var að sýna fram á að sóðaskapurinn er varðar framsal á óveiddum heimildum var fordæmalaus. Engin veiðiskylda og fleiri hundruð milljónir beint í vasa þeirra sem fengu heimildirnar.
Ráðherra var upplýstur um hvernig heimildir hafa verið nýttar á síðustu vertíðum í flokki skipa án vinnslu. Í fyrra var úthlutað 7.900 tonnum á 76 skip og 74 af þeim veiddu ekki neitt, en 18 af þeim töldust samkvæmt Fiskistofu hafa framselt sínar heimildir til tengdra aðila. Nú í ár var úthlutað 7.200 tonnum til 62 skipa án vinnslu og ekkert af þeim veiddi eitt einasta kíló, heldur leigðu frá sér allar sínar heimildir á 36-40 krónur kílóið, eða fyrir um 260 milljónir,“ sagði Axel í ræðu sinni á aðalfundinum.
Hann vék síðan að afkomu báta á makrílveiðum: „Verð milli ára lækkaði um rúm 20% og líklegt er að stór hluti þeirra sem hófu veiðar í ár skili dapurlegri afkomu af veiðunum. Það er miður að markaðsmönnum hefur ekki tekist að skapa handfæraveiddum makríl sérstöðu á mörkuðum en líklegt er að þar sé sökin að hluta til hjá okkur vegna óviðunandi aflameðferðar á fyrri árum.
Í febrúar síðastliðnum hélt LS árlegan LUROMA grásleppufund í London og við tókum með okkur í handfarangurinn frosinn makríl frá síðustu vertíð. Á veitingastað hótelsins starfaði Michelin kokkur sem þýddi upp makrílinn og eldaði á nokkra vegu. Að hans mati var þetta besti makríll sem hann hafði fengið. Þetta segir okkur að við höfum tækifæri með þennan fisk sem við höfum ekki náð að nýta,“ sagði Axel Helgason.
Ljósmydn frá LS.