Ráðgjöf ICES um síldveiði lækkuð um 30%

Deila:

Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, hefur sent frá sér leiðréttingu á fyrri ráðgjöfum um veiðar á norsk-íslenskri síld bæði árin 2017 og 2018. Þessa leiðréttingu má rekja til villu sem uppgötvaðist nýlega. Villan var í úrvinnslu á bergmálsgögnum úr leiðöngrum á hrygningartíma við Noreg. Afleiðingin er meðal annars sú að ráðlagður heildarafli 2018 samkvæmt aflareglu verður 384.197 tonn, eða 30% lægri en áður kynnt ráðgjöf frá því í september sl. sem þá var 560.000 tonn. Þá er lagt til að síldarafli í ár verði ekki meiri en 437.364 tonn.

Í október 2017 uppgötvaðist villa í gögnum frá bergmálsleiðangri á hrygningarslóð við Noreg fyrir árin 1988-2008. Þessi villa olli því að vísitölur um stærð stofnsins voru stórlega vanmetnar yfir þetta tímabil. Þessi villa hafði bæði áhrif á ráðgjöfina fyrir árið 2017, sem var gefin í september 2016, og fyrir árið 2018, sem var gefin í september sl. Leiðrétting á ráðgjöf fyrir árin 2017 og 2018 er byggð á leiðréttu stofnmati 2017. Leiðrétta stofnmatið sýnir stærð hrygningarstofns árið 2017 vera 14% lægri og fiskveiðidauði ársins 2016 er 15% hærri heldur en stofnmatið sem kynnt var í september sl. Samþykkt aflaregla gefur 32% lægra ráðlagt aflamark fyrir árið 2017 og 30% lægra ráðlagt aflamark fyrir árið 2018 en fyrri útgefnar ráðgjafir.

Afli íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2016 var 50 186 tonn og var allur veiddur í flotvörpu. Tæp 99% aflans fékkst innan íslenskrar lögsögu, um 1% í færeyskri lögsögu og minna en 0.5% á alþjóðahafsvæði. Beinar veiðar á síldinni hófust í ágúst og stóðu yfir fram í desember. Mest veiddist í september (35%) og í október (40%). Heildarafli allra þjóða úr stofninum árið 2016 var 383 174 tonn. Afli íslenskra skipa nú af norsk-íslensku síldinni er orðinn 73.200 tonn.

Nánar má lesa um leiðréttu ráðgjöfina hér og á vef ICES.

Deila: