Síldarstofninn svipaður að stærð og í fyrra

Deila:

Niðurstöður síldarleiðangurs norsku Hafrannsóknastofnunarinnar gefa til kynna að stofn norsk-íslensku síldarinnar sé nú svipaður að stærð og hann var á sama tíma í fyrra. Þá bendir góð nýliðun til þess að hægt geti á þróun undanfarinna ára sem hefur verið samdráttur í stofnstærðinni, en ekki snúið henni við.

Leiðangurinn stóð yfir dagana 13. Til 15. febrúar á svæðinu frá Mæri norður til marka Finnmerkur og Troms. Veður var einstaklega hagstætt og gengu mælingar vel. Þá voru fleiri tog tekin en áður og mun fleiri sýnum safnað til aldursgreiningar og annarra rannsókna. Niðurstöður þykja því nákvæmari og áreiðanlegri en í fyrra.

Síldarmælingar við Noreg

Bergmálsmælingar á síldinni gengu mjög vel og varð hennar vart á öllu rannsóknarsvæðinu. Mest var af henni á 150 til 300 metra dýpi. Um 75% síldarinnar var að finna milli Búagrunns og Vesterålen, 63°-67°30 gráður norður, og á Fugleyjarbanka, 71° norður. Óverulegt magn síldar fannst á þekktu vetrarsetu svæði síldarinnar suðvestur af Röst, þar sem veiðar voru stundaðar í janúar.

Þrátt fyrir svipaða stofnstærð og í fyrra er það metið svo að árgangar 6 ára síldar og eldri fari minnkandi, en það bætist upp með vexti í yngri árgöngum. Flestir fiskar mældust í árganginum frá 2013, sem reyndist 23% heildarinnar en var aðeins 10% í fyrra. Fram til þessa hefur mestur fjöldi fiska verið í árganginum frá 2004

Skýrsluna má lesa á slóðinni:

Survey Report NSS Herring Spawning Survey 2018.pdf

Deila: