Afmælishátíð SVN í Gdansk

Deila:

Dagana 30. nóvember og 1. desember nk. munu starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum halda til Gdansk í Póllandi. Þar mun hópurinn skoða sig um og eins verður þar haldin afmælishátíð fyrirtækisins en það verður sextíu ára hinn 11. desember nk. Alls telur hópurinn um 520 manns.

Farið verður með Icelandair frá Egilsstöðum og Keflavík. Frá Egilsstöðum verður flogið bæði 30. nóvember og 1. desember en frá Keflavík verður farið 1. desember. Hópnum verður síðan skilað til baka á sömu staði að ferð lokinni dagana 3. og 4. desember. Boðið verður upp á rútuferðir frá Neskaupstað og Seyðisfirði til Egilsstaða við brottför og sömu leið til baka að ferð lokinni. Nauðsynlegt er að farþegar verði komnir á Egilsstaðaflugvöll tveimur tímum fyrir brottför og þar verður boðið upp á morgunhressingu.

Frá Póllandi

Í Póllandi munu ferðalangarnir búa á tveimur hótelum í Sopot, nágrannabæ Gdansk. Hótelin eru þekkt fyrir gæði og heita Hotel Sheraton og Hotel Heffner. Afmælishátíðin verður haldin laugardagskvöldið 2. desember á Hotel Sheraton. Á hátíðinni verður boðið upp á frábær skemmtiatriði og þar munu koma fram bæði íslenskir og pólskir skemmtikraftar.

Á meðan hópurinn dvelur í Póllandi mun honum gefast tækifæri til að fara í skipulegar skoðunarferðir. Ferðirnar verða þrjár; í fyrsta lagi skoðunarferð um Gdansk, í öðru lagi ferð þar sem einn af stærstu köstulum Evrópu verður skoðaður og í þriðja lagi safnaferð þar sem tvö söfn verða heimsótt en annað þeirra er tileinkað síðari heimsstyrjöldinni. Síðar verður auglýst hvernig unnt verður að skrá sig í skoðunarferðirnar.

Ferðaskrifstofa Akureyrar hefur annast alla skipulagningu ferðarinnar.

 

Deila: