Sverðfiskurinn sækir til norðurs

Deila:

Sverðfiskur er fremur sjaldséður fiskur í norðurhöfum. Yngri fiskar þessarar tegundar eiga það þó til að bregða sér norður eftir til að kýla vömbina. Þetta kemur fram hjá norsku Hafrannsóknastofnuninni, sem segir að miklu meira hafi nú orðið vart við sverðfisk innan norsku lögsögunnar en áður eða síðustu 20 árin. Stofnunin leggur áherslu á að sjómenn tilkynni um sverðfisk, verði hans vart.

Loftslagsbreytingar og hlýnun sjávar hefur sennilega gert umhverfi okkar að betra „beitarlandi“ fyrir þessa suðrænu fiskitegund, sem aðeins verður vart sem „unglinga í útilegu,“ segir Svein Sundby hjá Hafrannsóknastofnuninni. Hann og starfsbróðir hans Leif Nøttestad hafa tekið saman yfirlit yfir veiðar á sverðfiski síðan 1967. Samkvæmt þeim hefur sverðfiskur veiðst eða hans orðið vart 33 sinnum á þessum 40 árum, þar af 22 sinnum eftir aldamótin. Árið 2006 voru skráðir fjórir sverðfiskar, sem er met.

Sverðfiskins hefur orðið vart norðvestur af Hammerfest, einum af nyrstu bæjum Noregs. Það þýðir að á þriggja til fjögurra mánaða tímabili getur fiskurinn synt frá Suður-Afríku til Norður-Norges og til baka, alls um 15.000 kílómetra. Sverðfiskarnir sem hafa veiðst út af norðurströndinni  hafa verið frá 20 kílóum upp í 80. Það þýðir að þar er ungdómurinn á ferð, þriggja til fjögurra ára fiskar. Fullvaxnir fiska vega nokkur hundruð kíló, en slíkar skepnur hafa ekki veiðst við strendur Noregs.

Hækkun hitastigs í Norðurhöfum allt frá upphafi níunda áratugar síðustu aldar hefur leitt til aukinna gangna uppsjávarfiska eins og kolmunna og makríls til norðurs en þeir eru ofarlega á matseðli sverðfisksins. Hækkandi hitastig gerir einnig sverðfiskinum kleift að fara lengra til norðurs þrátt fyrir að hann kjósi hlýrri sjó. Sverðfiskurinn er orkufrekur og þarf því mikla fæðu og getur því ekki verið mjög matvandur.

Sverðfiskar veiða yfirleitt einir eða í smáum hópum og éta nánast allt sem að kjafti kemur. Þegar við þriggja ára aldur geta þeir verið orðnir 30 kíló. Þeir eru mjög öflugir og geta vegna líkamsbyggingar sinnar bæði náð miklum hraða og stefnubreytingum, sem nauðsynlegt er til að elta bráðina uppi.

Þrátt fyrir að tölurnar um veiði á sverðfiski séu fátæklegar eru fiskifræðingarnir vissir um að meira sé orðið um sverðfiskinn á norðurslóðum. Sverðfiskur er mikill happadráttur og veiðist hann, ratar það yfirleitt alltaf í fjölmiðla. Verði það hins vegar algengara að draga sverðfisk úr sjó, getur það leitt til þess að tilkynningum um slíkan feng fækki. Veiði á öðrum tegundum eins og pétursfiski og tunglfiski eru til dæmis orðnar svo algengar að menn eru hættir að tilkynna þær. Fyrir vikið getur það leitt til þess að nýjar fiskitegundir séu að breiðast út án þess að útbreiðslan sé skráð.

Til hvers er sverðið?

Sverð fisksins er  í raun aðeins efri skoltur hans. Það getur orðið allt að hálfum metra að lengs og er þriðjungur heildarlengdar fisksins. Ein kenning er að sverðfiskurinn syndi í rólegheitum í kjölfar torfu af smærri fiski og láti þá halda að sverðið sé einn af fiskunum í torfunni.
Sverðfiskurinn reynir að skilja einstaka fiska frá torfunni og gleypir hann þá í einum grænum. Einnig hefur verið tekið eftir því að sverðfiskurinn sveifli sverðinu fram og til baka inni í torfunni þannig að hann geti slegið einstaka fiska í rot og étið síðan.

Þá getur sverðið hugsanlega verið eins konar stöðutákn. Þeim mun lengra og flottara sverðið er, gengur betur að ná sér í maka. Kannski skiptir stærðin máli eftir allt.

 

 

 

Deila: