Margoft bent á galla í reglum um vigtun afla

Deila:

Í tilefni af umfjöllun um brotamál og eftirlit í sjávarútvegi í sjónvarpi vill Fiskistofa koma eftirfarandi á framfæri:

  • Fiskistofa fékk í sumar vitneskju um myndefnið og þann vitnisburð sem honum fylgdi og birtist í fréttaskýringaþættinum Kveik þriðjudagskvöldið 21. nóvember sl. Sett hefur verið af stað rannsókn og málið sett í farveg sem mögulegt brotamál en stofnunin var bundin ákveðnum trúnaði gagnvart heimildarmanninum.  Síðan þetta mál kom upp hefur Fiskistofa sent eftirlitsmenn með í veiðiferðir hjá viðkomandi útgerð í tilefni af þessum upplýsingum.
  • Stjórnendur Fiskistofu hafa marg oft bent á galla í reglum um vigtun afla bæði gagnvart  ráðuneyti, stjórnmálamönnum og á opinberum vettvangi.  Nefna má að Fiskistofa gerði tillögur að mögulegum breytingum á vigtarlöggjöfinni og skilaði til ráðuneytis sjávarútvegsmála. Ráðuneytið vann frumvarp á grundvelli þeirra sem dagaði uppi. Stofnunin telur sem fyrr mjög brýnt að endurskoða reglur um vigtun sjávarfangs með þeim hætti að eftirlit og viðbrögð við brotum geti verið markvissari en nú er.
  • Fiskistofa  hélt úti  svonefndum  bakreikningsrannsóknum á mögulegum brotum á vigtarlöggjöfinn á árunum 2006 – 2012.  Niðurstaða þeirra 14 mála sem tekin voru fyrir  reyndist vera að 9 voru felld niður vegna þess að ekki var sýnt fram á óeðlilegt misræmi, 2 málum var vísað til annarra stjórnvalda vegna gruns um tegundasvindl og einu máli lauk fyrir dómstólum.  Það  varð ljóst að  árangur af þessum rannsóknum var  í engu samræmi við þann tíma og fjármuni sem í þær var lagt.  Því var tekin sú ákvörðun í samráði við ráðuneytið að stofnunin  beindi  kröftum sínum að öðru og árangursríkara eftirliti á grundvelli áhættugreiningar.
  • Fiskistofa hefur í mörg ár lagt áherslu á birtingu upplýsinga um  veiðar, vigtun og vinnslu. Gagnsæinu í þessum upplýsingum er m.a. ætlað að stuðla að því að  allir aðilar í sjávarútvegi geti  átt þátt í að  halda aftur af brotum.  Þetta hefur skilað góðum árangri. Þannig eru  niðurstöður vigtunar alls landaðs afla aðgengilegar á vef Fiskistofu. Áhafnir hafa t.d. verið í sambandi við  Fiskistofu vegna frávika í ísmagni við endurvigtun sem þær telja ekki stemma.  Sjómennirnir eru þeir sem ísa fiskinn og sé afli að hluta  í raun skráður sem ís við endurvigtun er  verið að hafa af áhöfninni réttan aflahlut og flytja ágóðann af útgerð til vinnslu. Sjómenn hafa því tekið þessari upplýsingagjöf fagnandi og telja hana veita aðhald.
  • Gagnaöflun Fiskistofu er einnig notuð til svonefndrar áhættugreiningar þar sem  leitast er við að  meta hvar  árangursríkast  er að bera niður í eftirliti út frá frávikum í aflasamsetningu eða íshlutfalli, svo dæmi séu nefnd.  Þetta  hefur reynst vel.  Nefna má að  birting frávika við endurvigtun eftir því hvort eftirlitsmaður er viðstaddur eða ekki  hefur   dregið fram  þau fyrirtæki þar sem  endurvigtun sker sig úr. Með þessu móti hefur verið hægt að  gera störf eftirlitsmanna markvissari.  Fjöldi eftirlitsmanna og viðvera þeirra á sjó, í höfnum og vinnslu er því ekki  einhlítur mælikvarði á  umfang og árangur eftirlitsins.

 

Deila: