Nýtt íslenskt fiskveiðistjórnunarkerfi verðlaunað

Deila:

Vilhjálmur Hallgrímsson og fyrirtækið Fisheries Technologies ehf. hlutu nýlega fyrstu verðlaun í samkeppni um Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2017. Verðlaunin voru veitt fyrir nýtt alhliða upplýsingakerfi fyrir fiskveiðistjórnun sem byggir á áratuga fjárfestingu og reynslu Íslendinga á þessu sviði. Með tilkomu kerfisins, sem kallast The Fisheries Manager, munu aðra þjóðir geta tileinkað sér þekkingu sem hefur orðið til á þessu sviði hérlendis fyrir aðeins brot af þeirri fjárfestingu sem hingað til hefur þurft.

Fisheries Technologies hefur þróað rammaumhverfið FishTech Framework sem lýsir hvernig árangursrík fiskveiðistjórnun virkar. Rammaumhverfið lýsir innviðum fiskveiðistjórnunar og inniheldur öll upplýsingakerfi sem þarf til slíks reksturs. Í því er einnig að finna helstu verkferla sem þörf er fyrir í vel útfærðri fiskveiðistjórnun.  „Við höfum verið í látlausri þróunarvinnu síðan við stofnuðum fyrirtækið 2012. Við vildum kanna hvort ekki væri hægt að taka þá miklu reynslu og fjárfestingu sem Íslendingar hafa lagt fiskveiðikerfið og setja það þannig fram að aðrar þjóðir geti nýtt sér það líka. Það hefur okkur tekist og nú erum við komnir með kerfi sem hefur þá eiginleika sem iðnríkin nota í sinni fiskveiðistjórnun og síðan höfum við bætt við þáttum sem þróunarríkin nota,“ segir Vilhjálmur Hallgrímsson. Fyrsta kynning á kerfinu fer fram um þessar mundir og segir Vilhjálmur að viðræður standi yfir við  einstök ríki og alþjóðlegar stofnanir sem hafi sýnt þessu verkefni mikinn áhuga.

Hugmyndin kviknar

Að sögn Vilhjálms er Fisheries Technologies ehf. stofnað af fimm sérfræðingum sem allir hafa áratuga reynslu af vinnu við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.Sjálfur er hann kerfisfræðingur en segir að þótt þeir hafi mismunandi bakgrunn eigi þeir allir rætur að rekja til tölvudeilda Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar þar sem þeir sáu um þróun og rekstur íslenska upplýsingakerfisins í áratugi. Hann segir þá einnig hafa unnið sem ráðgjafar erlendis þar á meðal í þróunarlöndum í Afríku og við Indlandshaf. „Þar voru menn að glíma við vandamál sem búið var að leysa hér heima fyrir löngu. Þá kviknaði hugmyndin að því að nýta þekkinguna og reynsluna sem Íslendingar búa yfir og gera úr henni útflutningsvöru.“

Vilhjálmur segir að þegar þróunarvinnan hófst hafi kerfið verið hugsað sem stjórnsýslulausn fyrir þjóðríki, ráðuneyti, hafrannsóknastofnanir, fiskistofur og landhelgisgæslur. „Síðan horfðum við á þarfir ýmissa útgerða sem eru ekki ósvipaðar, þótt þær séu á minni skala. Þessi lausn getur nýst þeim mjög vel líka sem stækkar hóp hugsanlegra notenda mikið.“

Fyrsta ahliða fiskveiðistjórnunarkerfið

Hann segir að víðast hvar hafi verið mikil vandræði í fiskveiðistjórnuninni vegna þess að lausnir fyrir söfnun og úrvinnslu gagna um fiskveiðar hafa ekki legið á lausu fyrr en núna með tilkomu þeirra kerfis.  Hann segir að rafrænar afladagbækur hafi verið innleiddar fyrir stærsta hluta íslenska flotans og með mikilli úrvinnslugetu nútíma tölvukerfa sé hægt að kalla fram upplýsingar í rauntíma sem áður hafi tekið langan tíma að vinna. Þetta opni nýja möguleika í allri stjórnun og eftirliti með veiðunum.

„Rafrænar afladagbækur veita rauntíma upplýsingar um staðsetningu skipa og báta. Það sem er nýtt hjá okkur og sem ekki hefur áður verið hægt, er að flokka skip eftir þeim veiðum sem þau stunda, hvaða afli er um borð í hverju skipi, hvaða fisk það ætlar að veiða og hvaða kvóta það hefur. Þetta býður upp á ýmsa möguleika og það fer eftir reglum í hverju landi hve djúpt er farið í þetta.“  Vilhjálmur segir kerfið í stöðugri þróun og það verði kynnt í nokkrum skrefum á næstu tveimur árum. „Þegar því er lokið verðum við komin með fyrsta alhliða stjórnkerfið sem vitað er um í heiminum sem er sérhæft fyrir fiskveiðistjórnun,“ segir Vilhjálmur Hallgrímsson hjá Fisheries Technologies.

 

Deila: