Allar heimildir Færeyinga til veiða við Ísland felldar úr gildi

Deila:

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á árinu 2018. Í því felst að þær reglugerðir sem gilda um heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eru felldar úr gildi frá og með 1. janúar 2018.

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landanna sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. desember 2017 náðist ekki samkomulag m.a. um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Á fundinum bauð Ísland fram óbreyttan samning en Færeyjar kröfðust aukinna heimilda til veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt afléttingu takmarkana á manneldisvinnslu á loðnu. Áform ráðherra voru kynnt færeyskum stjórnvöldum fyrir jól eftir að Færeyjar höfðu tilkynnt að íslensk  fiskiskip fengju ekki aðgang til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu nema að kröfum þeirra yrði gengið. Ákvörðun ráðherra nú hefur sömuleiðis verið kynnt færeyskum stjórnvöldum.

Heimildir Færeyinga voru þær sömu á þessu ári og þær voru 2016 í ár eða um 5.600 tonn af botnfiski, en hámark fyrir þorskveiði hækkaði úr 1.900 tonnum í 2.400 tonn. Samið var um, eins og áður, að Færeyingar geti veitt loðnu við Ísland sem nemur 5% af ákvörðuðum heildarafla í loðnu á vertíðinni en þó að hámarki 30.000 tonn. Áfram voru takmarkanir á heimildum Færeyinga til að verka loðnu um borð eða landa í Færeyjum til manneldis. Þó var sú rýmkun að heimildin til manneldisvinnslu eftir 15. febrúar færi ekki undir 4.000 tonn, þótt það magn nemi hærra hlutfalli en 1/3 af loðnukvótanum.

Engar breytingar voru gerðar á heimildum Íslands til að veiða 1.300 tonn af makríl og 2.000 tonn af Hjaltlandssíld í færeyskri lögsögu, né á gagnkvæmum aðgangi þjóðanna til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld í lögsögum hvors annars.

Verði enginn samningur í gildi falla niður allar heimildir íslenskra skipa til kolmunnaveiða innan lögsögu Færeyja. Slíkar veiðar hafa að jafnaði verið stundaðar í janúar og hefur megnið af kolmunnakvóta hvers árs verið tekið innan lögsögu Færeyja.

 

Deila: