Pönnusteiktur lax með sítrus- og engifersósu

Deila:

Jæja, þá er enn ein veislan framundan, áramótin. Flestir hafa líklega verið með kjöt um jólin og því væri kærkomið að fá sér fisk eftir allt kjötátið. Við fundum mjög fína uppskrift að laxi í einni af matreiðslubókum Nóatúns, Veisla með fjölskyldu og vinum. Þetta er virkilega góður matur sem hæfir vel í hvað veislu sem er fyrir bæði fjölskyldu og vini eða sem rómantískur kvöldverður fyrir elskendur á öllum aldri. Hvort sem þá óskar Kvótinn lesendum síðum gleðilegs árs og friðar á komandi ári og þakkar samfylgdina á árunum sem eru liðin.

Innihald:

800 g beinhreinsuð og roðdregin laxaflök
hveiti
olía til steikingar
salt og pipar

Sósa:

½ laukur, fínt saxaður
1 tsk engifer, fínt saxað
safi í 1 sítrónu
safi úr tveimur greipaldinum
safi úr tveimur appelsínum
3 dl rjómi
100 g smjör
salt og pipar.

Aðferð:

Skiptið laxaflökunum í fjóra bita. Veltið þeim upp úr hveitinu, hristið laust hveiti af og brúnið bitana í olíunni á öllum hliðum. Stráið salti og pipar yfir og setji á fat í ofn í 4-6 mínútur við 160°C.
Steikið lauk og engifer í olíu í þykkbotna potti, án þess að brúna. Bætið safanum af ávöxtunum út í og látið sjóða smástund, þá er rjómanum bætt út í og látið sjóða rólega í nokkrar mínútur. Smakkað til með salti og pipar. Takið sósuna af hitanum þannig að hætti að sjóða og þeytið kalt smjörið saman við í litlum bitum. Sósan má ekki sjóða aftur, ellegar er hætta á að smjörið skilji sig frá sósunni.

Berið fiskinn fram með sósunni, soðnum smjörsteiktum kartöflum og snöggsoðnum sykurbaunum og gulrótarstrimlum.

Deila: