Bleikju ceviche
Bleikja er einhver besti matfiskur sem völ er á um veröld víða. Hún bæði bragðgóð og holl og líka svo einstaklega falleg á litinn. Bleikjuna má eins og annan fisk elda á óteljandi vegu, en að borða hana hráa er sennilega flestum nýlunda. Við sóttum þessa flottu uppskrift inn á vefinn fiskurimatinn.is en henni er haldið úti af Norðanfiski. Þetta er flottur forréttur til dæmis með grillkjötinu en einnig ljúffengur smáréttur fyrir elskendur á öllum aldri á fallegu rómantísku síðkvöldi með kældu hvítvíni, kertaljósi (þegar fer að dimma) og Dean Martin í græjunum.
Innihald:
- 300 g bleikja
- Safi úr 3 límónum (lime)
- 30 g skalotlaukur, fínskorinn
- 30 g rauðlaukur, fínt skorin
- 1 sellerístilkur, fínskorinn
- 1 gott knippi kóríander
- 3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- 1 msk jalapeno, fínsaxað
- Salt og pipar
Aðferð:
Bleikjan er skorin í grófa teninga, sett í skál og krydduð með salti og pipar. Rauðlauk, skalotlauk, selleríi, hvítlauk og kóríander er bætt út í skálina. Límónusafanum er hellt yfir og öllu blandað vel saman. Borið strax fram.