Dagatölunum verður hent

Deila:

Síldarvinnslan bauð upp á opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo í Egilsbúð í Neskaupstað fyrir áramótin Fyrirlesari var Magnús Orri Schram stjórnarmaður í UN Women á Íslandi.

„Fyrirlesturinn var athyglisverður og fjallaði Magnús Orri um ábyrgð karlmanna í breyttum heimi ekki síst í ljósi nýrra viðhorfa sem tengjast hinni svonefndu #metoo byltingu. Í máli hans kom fram hvatning til karlmanna um að endurskoða viðhorf sín og hegðun í garð kvenna. Það væri svo sannarlega þörf á að hlusta á hinar fjölmörgu raddir kvenna sem upplýstu um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni. Á fyrirlestrinum lásu þær Ingibjörg Þórðardóttir, Birta Sæmundsdóttir og Sólveig Helga Björgúlfsdóttir frásagnir kvenna sem orðið hafa fyrir áreitni. Um 70 manns sóttu fyrirlesturinn og höfðu margir orð á því að þarna væri um þarft og gott framtak að ræða.

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar kynnti fyrirlesarann í upphafi og hafði orð á því að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan þyrfti að taka fullt mark á þeirri umræðu sem byrjað hefði fyrir alvöru með #metoo byltingunni. Sagði hann að nauðsynlegt væri að hvert einasta fyrirtæki og hver einasta stofnun hugsaði sinn gang og gripi til aðgerða til að hindra að kynbundin mismunun og áreitni ætti sér stað. Þá tilkynnti hann að framvegis myndu hin hefðbundnu dagatöl með fáklæddum eða berum konum ekki fara upp á vegg á vinnustöðum og í skipum Síldarvinnslunnar. Þegar sendingar af slíkum dagatölum bærust fyrirtækinu í upphafi nýs árs færu þau öll með tölu beint í ruslið,“ segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar

 

Deila: