Ætlaði aldrei á frystitogara
„Ég er vestan af Tálknafirði og byrjaði þar á sjó á snurvoð og á togaranum Tálknfirðingi. Maður var á sjó á sumrin og milli skóla, en ég kláraði stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði áður en ég fór í Stýrimannaskólann. Ég bjó svo fyrir vestan þar til ég réði mig á Hrafn Sveinbjarnarson. Ég og Binni yfirvélstjóri, erum að klára 28 árið þar núna um áramótin. Við fórum um borð þegar Þorbjörn í Grindavík keypti hann frá Hrísey, en þá hét hann Snæfell,“ segir Sigurður Jónsson, skipstjóri á Þorbjarnartogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255.
„Ég kláraði skólann 89 og réði mig þá um borð um áramótin. Við hjónin ætluðum alltaf að flytja til Grindavíkur. Í desember þetta ár var ég á Tálknfirðingi einhversstaðar úti á sjó og við sáum Snæfell. Ég horfði án hann og sagði; á frystitogara fer ég aldrei. Það stóð ekki lengi. Rétt fyrir jólin, þegar Þorbjörn kaupir skipið, var ég að fara með vini mínum með 30 tonna bát suður til Reykjavíkur frá Ísafirði, og fréttin kemur í loftið. Þá voru engir farsímar og það var tengdapabbi minn, Pétur Vilbergsson, sem frétti af þessum kaupum og þeir væru að ráða mannskap. Hann hringdi í Fanney, konuna mína, og hún eiginlega réði mig. „Við erum að fara suður um áramótin, Siggi,“ sagði hún.
Hefði ekki getað fengið betri kennara
Þetta var góð ákvörðun eins og svo margar sem eru teknar í skyndi, að hrökkva eða stökkva. Ég byrjaði svo sem bátsmaður um áramótin. Strax um sumarið er ég svo orðinn annar stýrimaður og byrjaður að leysa af strax um sumarið. Ég var alltaf með Hilmari Helgasyni og hefði ekki getað fengið betri kennara. Hann var einstakur í þeim efnum og hann hefur kennt mér nánast allt sem ég kann í þessum efnum. Kristinn Gestsson, sem lengi var með Þerney, var þarna líka, eftir að Aðalvíkin, sem hann hafði verið með, var seld. Hann var með okkur nokkur ár, en fór svo á Snorra Sturluson og síðan Þerneyna.
Þegar hann fer verð ég fastur stýrimaður og byrjaði að leysa af sem skipstjóri innan við þrítugt. Þetta er orðinn langur tími en skemmtilegur. Í dag er þetta orðið gjörólíkt því sem var, þegar maður byrjaði. Að vera kominn í þetta kerfi þar sem róið er einn túr og annar í frí, í staðinn fyrir það þegar menn voru að róa jafnvel fimm eða sex túra í beit,“ segir Sigurður.
Það besta sem völ er á
Við förum svo yfir í fiskveiðistjórnunina.
„Auðvitað man maður eftir því þegar maður byrjaði á sjó í frystingunni að það var bara minna af fiski. Með aukinni tækni er minni tími sem fer til spillis við veiðarnar og þær orðnar markvissari. Í rauninni sé ég báðar hliðar á fiskveiðistjórnunni, því ég er að byrja þegar kvótakerfið kemur. Þegar ég var á Tálknfirðingi vorum við í þessu sóknarmarki og er svo komin í brúna þegar kvótakerfið kemur. Það er alveg klárt að kvótakerfið er miklu betra en sú veiðistjórnun sem var áður var við lýði. Það er alveg klárt að það er það besta sem völ er á, þó sníða megi af því einhverja vankanta. Það er ekkert fullkomið, en þetta er það besta sem er í boði. Ég hef séð hvernig umgengnin um auðlinda var áður og hvernig hún er núna. Það er eins og svart og hvítt. Brottkast hefur verið í umræðunni síðustu daga enda er umgengnin um auðlindina aðalatriðið. Þetta er ævistarfið manns og þess vegna umgengst maður auðlindina af virðingu.
Það hefur komið fram hjá Hafró að mælt brottkast er mjög lítið og hefur minnkað verulega. Það er kvótakerfinu að miklu leyti að þakka að brottkast er ekki mikið og með aukinni samþjöppun hafa skipin meiri heimildir og lenda síður í því að fá afla sem ekki eru heimildir fyrir. Það er grundvallaratriði að ganga vel um auðlindina og á frystitogurum er skipstjórinn helsta gæðavandamálið í rauninni. Þegar þú ert að fiska, eins og í síðasta túr hjá okkur, um þúsund tonn, þá er það oft á tíðum strákarnir niðri sem segja manni hvenær maður má hífa, hvort vinnslan hefur undan eða hvort vantar fisk. Þá er það mitt að gæta þess að allt gangi upp. Ef maður tekur of mikið, er maður farinn að tefja vinnsluna og og fá lakari gæði út úr henni.
Þá er svo margt sem hefur verið að gerast síðustu 10 til 15 árin með tengingu milli framleiðandans og kaupandans. Við erum búnir að framleiða fyrir sömu Fish and Chips veitingastaða keðjuna, sem er komin með yfir 40 staði í London og svæðinu þar um kring, í 15 ár. Þeir kaupa bara af Þorbirni, Júlíusi Geirmundssyni og ákveðnum skipum. Þetta hefur breytt svo miklu um gæðavitund okkar. Gæðin eru bara orðin alveg einstök, mun betri en fyrstu árin.
Skipstjóri og frystihússtjóri
Nú er skipstjórinn á frystitogara ekki bara skipstjóri, heldur frystihússtjóri líka. Þetta þarf að flétta saman og tengja við óskir kaupendanna. Hafa í huga hvað það er sem þá vantar. Þetta er í raun innkaupalisti sem maður fær fyrir hverja veiðiferð, en ég vinn fyrir útgerð sem gefur okkur mikið frjálsræði um það hvernig við högum veiðunum. Okkur er treyst fyrir því og maður er þakkátur fyrir það. Fyrsta september fáum við að vita hver kvótinn á fiskveiðiárinu er og svo spilum við úr því eins og best er.
Auðvitað kemur það fyrir að okkur er sagt að gott væri að fá þessa tegund eða hina. Þá reynir maður það en kvótaárið hjá okkur er annars svolítil rútína. Við erum með blandaðan kvóta og þá þarf bara að hugsa um það strax fyrsta september að ekki þýðir að fara að moka inn þorski, heldur leggja sig eftir tegundunum, sem erfiðast er að ná í. Svo þarf auðvitað að hugsa um að halda þessum mörkuðum sem við erum að þjóna, uppfylla sölusamninga við fasta kúnna, sem þarf að passa upp á. Við erum með fjölmargar vinnsluleiðir og mörg vörunúmer.“
7.000 til 8.000 tonna kvóti
Hrafn Sveinbjarnarson hét áður Snæfell og var fremur stuttur togari, því upphaflega vantaði úreldingu fyrir skipið og það var stytt frá upphaflegri teikningu. Fyrir þremur árum var skipið svo lengt í samræmi við það sem upphaflega var ætlað og breytingin er mikil. Til dæmis er lestarpláss nú tvöfalt meira og öll aðstaða í vinnslunni mun betri og afköstin hafa aukist verulega. En það er ekki allt. „Síðan hefur einn frystitogarinn í félaginu seldur og heimildirnar sameinaðar á tvo og það eykur hagkvæmnina og getuna til að gera betur. Við höfum því næg verkefni. Á þessu kvótaári erum við með um 7.000 til 8.000 tonna veiðiheimildir af bolfiski og makríl. Verkefnið er því ærið.
Nú er orðið erfiðara að ná þorski en áður. Ég er ekki að segja að það sé minna af honum en maður þarf að hafa meira fyrir því að ná honum. En það er víða fiskur. En maður þarf líka að hafa í huga að síðustu ár hafa verið mjög góð fiskiár, síðustu 10 árin eða meira hefur verið mjög gott fiskirí. Menn þurfa því að hugsa líka þá tíma sem veiðin var minni. Það eru ekki alltaf jól og ekki rétt að miða alltaf við þau ár, þar sem allt er í toppi. Menn verða að gera sér grein fyrir að þetta gengur upp og niður.“
Erum fyrirmynd víðast hvar
Við snúum okkur svo að fiskveiðistjórninni og veltum því fyrir okkur hvort breytinga sé þörf. Sigurður segir að ekki megi breyta bara til að breyta. „Ef breyta á kerfinu verðum við að vita fyrst hvað eigi að koma í staðinn. Umheimurinn horfir til okkar, hvernig við erum að stjórna fiskveiðum okkar. Við erum fyrirmynd víðast hvar. Það má kannski breyta einhverju, en breytingar verða að hafa hagræðingu í för með sér. Þegar menn eru að velta því fyrir sér hvernig staðan er í dag er hollt að hugsa til baka fyrir tíma kvótakerfisins, þegar sjávarútvegurinn var nánast á hausnum og rekinn meira og minna af opinberu sjóðakerfi. Með kvótakerfinu hefur þessi mynd algjörlega snúist við og útvegurinn skilar milljörðum til samfélagsins.“
Af og til koma upp hugmyndir um uppboð aflaheimilda til að frá „sanngjarna“ greiðslu fyrir aðganginn að auðlindinni. Sigurður er ekki sammála slíkum hugmyndum. „Ef þú ferð í eitthvað uppboðskerfi er stöðugleikanum og möguleikanum á því að skipuleggja sig fram í tímann kippt úr sambandi. Ef maður lítur betur á þetta, eru menn alltaf að reyna að gera betur, fá meiri verðmæti úr því sem dregið er úr sjónum. Við erum alltaf að ná betri og betri árangi og nýta meira úr hverjum fiski. Við sjáum nærtækt dæmi um það hér í Grindavík með samstarfi milli fyrirtækjanna Þorbjarnar og Vísis í Haustaki. Þar sem unnir eru ekki bara hausar, heldur hryggir og margt fleira og framleitt gæða lýsi. Í þetta er búið að leggja gífurlega mikla peninga og unnið frábært starf.
Þarf afnotarétt til lengri tíma
Svo eru menn að hugsa þetta ennþá lengra með því að stofna annað fyrirtæki sem mun vinna kollagen og nýta roðið og svo framvegis. Þar koma saman Þorbjörn, Vísir, Samherji, HB Grandi og hugsanlega fleiri. Við höfum fiskflakið. Það er alltaf eins og við vitum hvernig best er að nýta það. Það er hitt, sem af fiskinum kemur, sem við þurfum að nýta betur. Það kostar mikla peninga í upphafi en skilar sér svo margfalt til baka. Þegar menn fara í svona stór verkefni, verða menn að hafa afnotarétt af auðlindinni til lengri tíma. Ef farið verður í uppboðskerfi verður ósvissan um framtíðina allt of mikil. Þegar fjárfesta þarf til framtíðar gengur slík óvissa ekki upp. Slík óvissa getur einnig leitt til þess að mjög mikilvæg viðskiptasambönd glatist. Auðvitað verður útgerðin svo að greiða eðlilegt verð til þjóðarinnar fyrir afnotaréttinn. Um það þarf að ná samkomulagi.“
Sigurður segir að þróa verði sjávarútveginn áfram, bæði vinnslu og skip og til þess að menn geti farið í nauðsynlegar fjárfestingar verði að vera til þess rekstrargrundvöllur til langs tíma. Hann tekur dæmi af stöðunni í togaraflotanum, en mikil endurnýjun er að ganga yfir í ísfisktogurunum, en það þurfi líka endurnýjun í frystitogurunum. „Þessi skip sem við erum með eru bara alltof lítil. Við þurfum fleiri skip eins og hið nýja Sólberg og HB Grandaskipið sem er í smíðum. Þau eiga að veiða allt að 12.000 tonn af bolfiski á ári. Þau eru með mjölvinnslu um borð sem skilar í raun einum aukatúr í verðmætum á árinu í mjöli og lýsi.“
Pólitískt bitbein
Sjávarútvegurinn hefur í langan tíma verið pólitískt bitbein og umtal um hann neikvætt. Sigurður segir að auðvitað sé erfitt að búa við slíkar aðstæður. Það þurfi meiri ró í kringum sjávarútveginn og umræðan sé á hærra plani en oft sé. Neikvæð umræða hafi áhrif á alla. „Það er okkar að vinna okkur út úr þessu. Það hafa orðið miklar breytingar til hins betra, til dæmis hvað brottkastið varðar og það er litið niður á þá menn sem ganga illa um auðlindina. Við verðum að fara að já jákvæðari umræðu, sem byggist á meiri þekkingu en áður.“
Hann telur að það eigi til dæmis að vera öllum ljóst að þó veiðigjöld séu hækkuð verulega eins og sumir stjórnmálaflokkar hafi lagt áherslu á, hafi það lítil áhrif á heildarafkomu ríkissjóð og sé ekki að fara að bjarga fjárhag þjóðarinnar, eins sumir virðist halda. Sjávarútvegurinn skili engu að síður alltaf sínu til samfélagsins, bæði í beinum greiðslu og óbeinum með jákvæðum áhrifum á nærsamfélag sitt eins og í Grindavík.
„Þegar maður er búinn að vera í sjávarútveginum allan þennan tíma og þekkir hann út og inn, fer alveg óskaplega í pirrurnar á mér hve umræðan er stundum byggð á mikilli vanþekkingu. Það hálfa væri nóg. Oft á tíðum er þetta bara tómt kjaftæði og bull, jafnvel hjá sumum stjórnmálamönnum, sem þykjast vera að slá um sig. Svo þegar maður fer að ræða við þetta fólk er það komið í hring áður en maður veit af, en byrjar svo oftast aftur á sömu hringavitleysunni.“
Má ekki gerast aftur
Við ræðum svo verkfallið síðasta vetur, sem stóð í um tvo mánuði og var mörgum þungbært. Sigurður nefnir að við það hafi ferski fiskurinn frá Íslandi hætt að koma á markaði og aðrar þjóðir náð að fylla upp í skarðið. Mikinn tíma taki að vinna það hillupláss til baka. „Svona verkfall má ekki verða aftur. Við sjómenn lendum fyrst í því að vera samningslausir í fimm ár. Á þeim tíma er ekkert gert og það er okkur sjómönnum og útgerðarmönnum báðum að kenna. Allar þessar miklu breytingar sem orðið hafa í sjávarútveginum leiða til þess að miklu þarf að breyta í kjarasamningum okkar. Við þurfum einhverja tvo samninga í viðbót til að koma okkur inn í núið. Báðir aðilar verða að leysa það í sameiningu án þess að til verkfalls komi með tilheyrandi tapi. Við þurfum að laga ákveðna hluti og gera það saman, látum þetta ekki gerast aftur.“
Sigurður segir að þetta megi ekki snúast allt um að slá upp tölum um laun sjómanna, eftir góðan túr. Í fyrsta lagi rói menn yfirleitt bara annan hvern túr og sumir túrar séu svo mun slakari en aðrir. Hann bendir líka á að það sé einkennilegt að einstakir útgerðarmenn séu að býsnast yfir háum launum sjómanna. Fái sjómenn há laun fái útgerðin líka miklar tekjur. „Þetta hangir allt saman segir skipstjórinn Sigurður Jónsson.
Viðtalið birtist fyrst í desemberútgáfu Ægis.
Myndina af Sigurði tók Þorgeir Baldursson.