Enn setja Norðmenn útflutningsmet

Deila:

Norðmenn settu enn á ný met í útflutningi sjávarafurða á síðasta ári. Útflutningurinn nam 2,6 milljónum tonna að verðmæti 94,5 milljarðar norskra króna. Það svarar til 1.225 milljarða íslenskra króna. Þetta er aukning í verðmæti um 3% og 7% í magni miðað við síðasta met ár, sem var 2016.

„Árið 2017 var stórkostlegt fyrir útflutning sjávarafurða frá Noregi. Verðmæti útflutningsins jókst um 3% og vöxtur var í útflutningi til markaða í Asíu og Bandaríkjunum. Útflutningur til Evrópusambandsins er á sömu nótum og árið áður,“ segir Renate Larsen, framkvæmdastjóri útflutningsráðs Noregs fyrir sjávarafurðir.

72% heildarverðmætis útflutningsins var úr fiskeldi og 28% í veiðum. Mælt í magni er skiptingin hins vegar 40% úr fiskeldi og 60% úr veiðum.

Alls fór utan ein milljón tonna af afurðum úr fiskeldi að verðmæti 876 milljarðar íslenskra króna í fyrra. Það er aukning um 3,6% frá árinu áður. Magnið var hins vegar svipað bæði árin.

Hærra verð á laxi hefur dregið úr eftirspurn í Evrópu. Þar sem Evrópa er stærsti markaðurinn fyrir norskan eldislax hefur þessi þróun haft neikvæð áhrif á verðið sem lækkaði á seinni hluta síðasta ár.

Útflutningur af fiskafurðum úr veiðum á síðasta ári var 1,6 milljónir tonna að verðmæti 347 milljarðar íslenskra króna. Það er verðmætaaukning um 2,4% og vöxtur um 12% í magni viðað við árið 2016.

Aukning varð á útflutningi á svokölluðum hvítfiski en best verð fékkst fyrir flestar þorskafurðir.

Laxinn er áfram mikilvægastur í útflutningi sjávarafurða með 68% verðmætanna og 38% magnsins. Sala á urriða dróst á hinn bóginn saman vegna fækkunar framleiðenda og lokunar markaðsins í Rússlandi. Útflutningur á laxi, þorski og ýsu sló fyrri met á síðasta ári.

Mikilvægasti markaðurinn fyrir norskar sjávarafurðir eru lönd innan Evrópusambandsins. Þangað fóru 1,6 milljónir tonna að verðmæti 791 milljarður íslenskra króna. Það er aukning í magni um 2% en verðmæti stóð í stað. Til Asíu fluttu Norðmenn út 539.000 tonn að verðmæti 242 milljarðar króna. Það er aukning í verðmæti um 8% og magnið jókst um 12%

Mestur vöxtur á einstökum mörkuðum var í Bandaríkjunum. Þangað fóru afurðir að verðmæti 74 milljarðar króna. Það er aukning um 23%. Þá fóru 196.000 tonn að verðmæti 117 milljarðar til Póllands, þrátt fyrir samdrátt um 7% bæði í verðmæti og magni.

Lágt vinnslustig

Þegar litið er til baka hefur vinnslustig afurðanna lækkað. Árið 2010 var hlutfall óunnins bolfisks, uppsjávarfisks og eldisfisks, 66%, en í fyrra var þetta hlutfall 69%. Aðeins 17% af útfluttum eldislaxi er unninn að öðru leyti en að vera slægður. 83% útflutningsins er því heilfrystur fiskur. Hlutfallið í unnum þorski hefur einnig lækkað en þó fóru 53% þorskins unnin utan í fyrra, það er sem saltfiskur, þurrkaður saltfiskur, skreið eða flök. Hitt fer utan óunnið, slægt og hausað að mestu leyti.

Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs segir að útflutningur sjávarafurða sé ein af mikilvægustu útflutningsgreinum í norsku atvinnulífi. Tölur síðasta árs staðfesti það. Hann segir að metnaður ríkisstjórnarinnar sé til þess að fiskiðnaðurinn í landinu vaxi og dafni og skapi fleiri störf með aukinni afurðavinnslu.

 

 

Deila: