Hvalreki á Hvalsnesi
Rúmlega sautján metra langa langreyði rak á land í fjörunni neðan við Nesjar á Hvalsnesi. Sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun og Náttúrustofu Suðvesturlands fóru á svæðið í gær og mældu dýrið og tóku úr því sýni.
Sunna Björk Ragnarsdóttir líffræðingur hjá Náttúrustofunni var ein af þeim sem vitjaði hræsins í gær. „Við þurftum að bíða á meðan fjaraði út, dýrið mun fara að mestu í kaf þegar flæðir að. Við erum að kanna ástandið á dýrinu, þessar helstu mælingar og vefjasýni líka. Þetta er ferskt, alveg nýdautt kvendýr. Það er ofsalega grannt sem er tiltölulega óvenjulegt,“ segir Sunna í samtali við ruv.is.
Engir augljósir áverkar eru á dýrinu og því er ekki vitað af hverju það drapst. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað á að gera við hræið. Sverrir Daníel Halldórsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir að eftir að þau hafi mælt hræið sé það er nú í höndum sveitarfélagsins Sandgerðis. „Ég man ekki eftir langreyði á þessu svæði en nokkra hnúabaka hefur rekið á land í nágrenninu,“ segir Sverrir í samtali við fréttastofu ruv.