Lágmarka fóðurtap

Deila:

Við fóðrun fiska hjá Löxum fiskeldi ehf er notast við svokallaða „máltíðarfóðrun“ en hún er fólgin í því að fóðri er dælt markvisst í stuttum lotum inn í kví. Fylgst er með fóðruninni í neðansjávarmyndavélum og þegar fiskur er hættur að éta er hún stöðvuð.

„Þetta kemur fram á fésbókarsíðu fyrirtækisins Laxar fiskeldi.
Laxar fiskeldi leggur mikla áherslu á umhverfisvænt fiskeldi. Notast er við nýjustu tækni, viðurkenndan búnað, hágæða hráefni og reglubundið eftirlit sem er um fram þær starfsleyfiskyldu kröfur sem gerðar eru. Fóður sem notað er í sjókvíaeldinu er sérstakt laxafóður frá viðurkenndum söluaðila. Á undanförnum áratugum hefur verið unnið öflugt þróunarstarf á sviði fóðurgerðar og fóðrunar.
Það er fullt og óskipt starf ákveðinna starfsmanna félagsins að fóðra og fylgjast með kvíum í eftirlitsmyndavélum. Í sérhverri kví er ein myndavél sem er hreyfanleg og fer staðsetning hennar eftir því hvar fiskurinn heldur sig á meðan verið er að fóðra.
Kostir þessarar fóðrunartækni eru ótvíræðir. Með henni er tryggt lágmarks fóðurtap sem leiðir til aukinnar rekstrarhagkvæmni en jafnframt því er slík stýring þáttur í umhverfisvænna eldi þar sem losun lífrænna efna er minni.“

 

Deila: