Vertíðin fer vel af stað
Venus NS kom til heimahafnar á Vopnafirði um miðjan dag í gær með fullfermi af loðnu. Loðnan fékkst í Langaneskantinum austanverðum og verður ekki annað sagt en að loðnuvertíðin fari vel af stað.
,,Við fórum frá Reykjavík að kvöldi 3. janúar og byrjuðum veiðar á Vestfjarðamiðum. Þar tókum við eitt kast með nót en fengum bara smáloðnu og því héldum við austur að Langanesi,“ segir Guðlaugur Jónsson skipstjóri í samtali á heimasíðu HB Granda, en hann vonast til að aflinn sé um 2.800 tonn.
,,Við vorum þrjá sólarhringa á miðunum austan við Langanes og þótt lítið sæist og lóðningar væru óverulegar náðum við að fylla skipið í sjö holum. Það var verið að ljúka við að dæla aflanum í land og við förum aftur á miðin eftir nokkrar mínútur,“ sagði Guðlaugur er tal náðist af honum síðdegis í gær.
Víkingur AK er nú á loðnumiðunum fyrir austan en gert er ráð fyrir að skipið komi til hafnar á Vopnafirði í kvöld.