Þorskur í álfrakka

Deila:

Klæðnaður getur verið ýmis konar og frakkar eða kápur eru hlífðarföt af fínna taginu. Fiskar klæðast reyndar ekki fötum í lifanda lífi en eiga það til eftir andlátið. Að minnsta kosti þorskurinn sem fer í þessa uppskrift, því hann er klæddur í álfrakka, sem fer honum býsna vel. Þessa uppskrift fundum við í bókinni Fiskur, sem gefin var út af bókaútgáfunni Krydd í tilveruna á síðustu öld. Í henni er að finna fjölmargar góðar uppskriftir og leiðbeiningar um innkaup á fiski, meðferð og næringargildi.

Innihald:

800 gr. þorskur, sporðstykki
safi úr 1 sítrónu
1 tsk. salt
¼ tsk. nýmalaður hvítur pipar
1 tsk. meðalsterkt sinnep
100 gr. vorlaukar
100 gr. púrra
100 gr. gulrætur
1 búnt steinselja
3 msk. smjör
50 gr. flesk í þunnum sneiðum

Aðferð:

Ofninn er hitaður í 200°.

Fiskurinn skolaður vel undir köldu, rennandi vatni, þerraður og sítrónusafa dreypt á hann utan og innan. Salti og pipar blandað saman og nuddað vel inn í fiskinn. Sinnepi smurt á roðið.

Laukurinn og púrran hreinsuð, skoluð og skorin í hringi. Gulræturnar þvegnar og skafnar, skornar í mjóar lengjur. Steinseljan skoluð, þerruð og söxuð fínt.

Hæfilega stórt stykki af ál- eða steikarpappír smurt með dálitlu smjöri, fiskurinn lagður þar á. Helmingurinn af grænmetinu látinn inn í fiskinn, það sem eftir er, er lagt ofan á ásamt steinseljunni. Flesksneiðunum og smjörinu raðað ofan á fiskinn.

Álpappírnum vafið lauslega utan um fiskstykkið, lagt í eldfast mót og bakað í miðjum ofni í u.þ.b. 30 mínútur.

Þegar 10 mínútur eru eftir af bökunartímanum er pappírnum flett ofan af og flesksneiðarnar fjarlægðar svo fiskurinn nái að taka lit á roðið.

Borinn fram í pappírnum.

Nýsoðnar kartöflur með steinselju, gróft brauð, sinnep og ferskt salat er gott með þessum rétti.

 

Deila: