Oddur spekingur eignast Vinnslustöðvarbókina

Deila:

Ættfræðiþjónustan ORG í Skerjafirði hefur eignast sögu Vinnslustöðvarinnar og bætt henni við í sístækkandi bókasafn sitt, bakland gagnagrunns um ættarstofna og ættargreinar um lönd og álfur. „Þessi er hjartanlega velkomin og þótt fyrr hefði verið,“ sagði Oddur Helgason ættfræðingur þegar hann fékk bókina í hendur.

Svo fór hann að fletta, datt á svipstundu inn í Eyjasamfélagið í huganum og romsaði upp úr sér nöfnum á fólki og fleyjum. Oddur spekingur hefur nefnilega komið öllu víðar við sögu en í ættargrúski við tölvuskjá. Á árum áður var hann til sjós, lengst á togurum Útgerðarfélags Akureyringa en líka í sjómennsku fyrir sunnan. Hann var til að mynda um hríð starfsmaður Vinnslustöðvarinnar bæði til sjós og lands og nefndi strax til sögunnar skipstjóra, verkstjóra og ótal fleiri sem hann kynntist og starfaði með í Eyjum. Lét gjarnan fylgja hvernig hinir og þessir tengdust ættar- og fjölskylduböndum þvers og kruss. Lét að sjálfsögðu getið um eigin skyldleika við Eyjamenn: „Raggi pól (Ragnar Helgason) var föðurbróðir minn og við Geiri Scheving vorum þremenningar.“

Þegar eldsumbrot hófust á Heimaey fyrir 45 árum var Oddur á sjó fyrir sunnan land:

„Ég var að leysa af á Jóni á Hofi ÁR. Við áttum trossur langt austur með ströndinni. Þarna um morguninn kom einn fram í og segir: Það er byrjað að gjósa í Eyjum! Ég sagði honum nú bara að halda kjafti og halla sér aftur en þetta reyndist rétt og satt vera.

Við vorum sendir til Vestmannaeyja til að flytja þaðan góss úr Útvegsbankanum til Þorlákshafnar. Ekki peninga, bara skjöl.

Með okkur var lögreglumaður til að gæta farmsins. Greyið var bullandi sjóveikt alla leiðina.

Þegar við komum til Þorlákshafnar var bryggjan rýmd og lögreglan fylgdist með þegar kassarnir voru bornir í land.

Með okkur var ein stelpa frá Vestmannaeyjum. Ekki man ég hvernig á því stóð að hún var þarna eins síns liðs en ég kom henni í vinnu hjá Rikka frænda mínum í Meitlinum.

Þannig var nú það.

Skilaðu svo kveðju til Halla Gísla í Vinnslustöðinni. Er hann ekki stjórnarformaður? Jæja, hvað um það. Hann er mikill öðlingur og stórvinur minn. Binni fær kveðju líka. Ég hef ekki kynnst honum almennilega en hann er vinur minn samt. Þessir höfðingjar ættu að líta inn hjá mér í Skerjafirði þegar þeir eiga erindi til höfuðborgarinnar.“

Á myndinni afhendir höfundurinn spekingnum bókina, Oddur Helgason og Atli Rúnar Halldórsson.
Mynd: Helgi Hannes Atlason.

 

Deila: