Farsælum ferli Sturlaugs lokið

Deila:

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir HB Granda aðfararnótt sl. þriðjudags. Aflinn var um 90 tonn af karfa, þorski og ufsa. Þar með er farsælum ferli skipsins undir merkjum HB Granda lokið en nýsmíðin Akurey AK hefur leyst Sturlaug af hólmi samkvæmt frétt á heimasíðu HB Granda.

Sturlaugur H. Böðvarsson AK var smíðaður hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts árið 1981 fyrir Grundfirðinga og hét þá Sigurfari SH. Togarinn, sem er 58,30 metra langur og mælist 431 brúttórúmlest, kostaði á sínum tíma 37,3 milljónir króna að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar á smíðatímanum. Hann komst síðar í eigu Haraldar Böðvarssonar hf. og fékk þá Sturlaugsnafnið. Eftir sameiningu Granda og Haraldar Böðvarssonar í HB Granda hefur skipið verið gert út undir merkjum félagsins.

Eiríkur Jónsson hefur verið skipstjóri á Sturlaugi frá árinu 2009 en hann hafði þá verið stýrimaður á skipinu frá árinu 1992. Hann þekkir Sturlaug því öðrum betur og það er við hæfi að rifja upp ummæli hans um skipið frá því í sjómannadagsspjalli í fyrra.
„Sturlaugur er mjög gott skip, smíðað á Akranesi árið 1981 fyrir Grundfirðing hf., en það hét upphaflega Sigurfari SH. Þetta er því skip sem komið er til ára sinna en það breytir þó engu um að það hefur staðið vel fyrir sínu.“
Þess má geta að skipstjóri í síðustu veiðiferð Sturlaugs H. Böðvarssonar fyrir HB Granda var Jón Frímann Eiríksson en hann er sonur Eiríks Jónssonar.

 

Deila: