Mesta tekjuaukningin í fiskeldi
Fiskeldi og fiskveiðar og fiskvinnsla hafa staðið undir mestum vexti atvinnutekna á Vestfjörðum undanfarin ár, samkvæmt nýrri skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur eftir atvinnugreinum og landssvæðum.
Heildaratvinnutekjur á Vestfjörðum hækkuðu um tæp 5% á tímabilinu 2008 til 2016. Eftir lækkun í framhaldi af hruninu 2008 hækkuðu atvinnutekjur um 7% bæði árin 2015 og 2016. Mestu atvinnutekjurnar voru greiddar í fiskveiðum en nokkuð þar eftir koma fiskvinnsla, opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta.
Mesta aukningin í atvinnutekjum á Vestfjörðum varð í fiskeldi en nokkuð langt þar á eftir komu fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta og gisting- og veitingar. Verulegur samdráttur varð hins vegar í mannvirkjagerð og opinberri stjórnsýslu auk fjármála- og vátryggingastarfsemi. Meðalatvinnutekjur á Vestfjörðum voru rétt undir landsmeðaltali. Segja má að meðalatvinnutekjur í Ísafjarðarbæ séu á pari við landsmeðaltal en aðrir hlutar Vestfjarða rétt undir því .
Í Ísafjarðarbæ var fiskvinnsla stærsta atvinnugreinin mælt í atvinnutekjum árið 2016 en nokkuð þar á eftir komu heilbrigðis- og félagsþjónusta, fiskveiðar, fræðslustarfsemi og opinber þjónusta. Á Vestfjörðum utan Ísafjarðarbæjar voru fiskveiðar langstærsta atvinnugreinin um tvöfalt stærri en næsta grein sem var opinber stjórnsýsla. Þar á eftir komu síðan fræðslustarfsemi, fiskvinnsla og fiskeldi.