„Veiðigjaldakerfinu verður að breyta“

Deila:

„Við verðum að breyta því hvernig við leggjum þetta gjald á og færa álagninguna nær í tíma. Við sjáum sveiflur í gengi, á afurðaverði á mörkuðum, breytingar í launum svo ekki sé minnst á náttúrulegar breytingar svo sem stærð fiskistofna, sem geta haft mjög mikil áhrif á skömmum tíma.“

Þetta segir sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, um álagningu veiðigjalda á sjávarútveginn í samtali við blaðið Sóknarfæri, sem Athygli hf. gefur út. Blaðinu er dreift með Morgunblaðinu í dag.

Í viðtalinu segir Kristján Þór ennfremur: „Þá er mjög slæmt og íþyngjandi að veiðigjaldið sé reiknað á grunni hátt í tveggja ára gamalla rekstrarupplýsinga, líkt og nú er gert. Veiðigjaldanefnd er að störfum og ég hef hitt nefndina nokkrum sinnum frá því ég tók við embætti og vonast eftir að geta á yfirstandandi þingi lagt fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á veiðigjaldinu.“

Ráðherrann er spurður um þau sjónarmið að útgerðin geti skilað hærra veiðigjaldi en hún gerir nú. Hann svarar því svo: „Ég sé ekki hvernig atvinnugreinin ætti að bera stórhækkun veiðigjalda og vísa líka til þess sem komið hefur fram hjá rekstraraðilum í sjávarútvegi að veiðigjöldin samsvari því að tekin séu hátt í 60% af afkomu greinarinnar í veiðigjald. Slíka skattheimtu ber engin atvinnugrein til lengri tíma.“

Deila: