Erum að skapa verðmæti

Deila:

„Það fylgir þessu birta og gleði, aukin atvinna sem hefur mikil og góð áhrif á samfélagið allt hér í kringum okkur,“ segir Jóna Kristín Sigurðardóttir, fiskmatsmatur hjá Búlandstindi á Djúpavogi. Laxaslátrun er þar nýlega hafin af fullum krafti, slátrað hefur verið allt upp í 30 tonnum á dag þannig að mikið er umleikis hjá fyrirtækinu, allir leggja sig fram við að skapa verðmæti og andinn á vinnustaðnum er góður.

Jóna Kristín Sigurðardóttir.

Jóna Kristín Sigurðardóttir.

Jóna Kristín hefur lengi starfað innan sjávarútvegsins á Djúpavogi, ræturnar liggja þó í landbúnaði en hún ólst upp á Karlsstöðum í Berufirði þar sem foreldrar hennar stunduðu búskap í 55 ár. Jóna Kristín er yngst 7 systkina og sú eina úr hópnum sem búsett er á Austurlandi en systkini hennar búa víða um land. Jóna Kristín flutti á Djúpavog árið 1983 og kom sér þar upp heimili ásamt eiginmanni sínum en þau eiga tvo syni og 5 barnabörn.

Með mikla trú á heimabyggðinni

„Ég byrjaði snemma að vinna við hefðbundna fiskivinnslu hjá Búlandstindi, síðan tók Vísir í Grindavík við rekstrinum hér. Þeir fluttu starfsemi sína til Grindavíkur fyrir þremur árum en nýtt félag, Búlandstindur, tók við og hélt áfram fiskvinnslu í húsnæði Vísis,“ segir Jóna Kristín.

Búlandstindur er í eigu þriggja félaga; Ósness, Fiskeldis Austfjarða og Laxa, sem er á Reyðarfirði. Vísir afhenti á sínum tíma hinu nýja félagi eignir sínar á Djúpavogi endurgjaldslaust gegn því að það haldi uppi atvinnu á staðnum til fimm ára. „Það var vissulega ákveðið áfall fyrir byggðarlagið þegar Vísir tók þá ákvörðun að flytja sína starfsemi, en þeir stóðu mjög vel að öllum málum, tryggðu m.a. að vinnslan kæmist í eigu heimamanna og að starfsemi yrði hér áfram. Fyrir það erum við þakklát,“ segir Jóna Kristín. „Það er söknuður að eigendum Vísis úr okkar daglega samfélagi, þeir voru mjög virkir, drífandi og jákvæðir.“

Hún starfar við fiskmat, lauk því námi árið 2005. Henni var, líkt og öðru starfsfólki hjá Vísi, boðið að flytja með fyrirtækinu til Grindavíkur á sínum tíma. „Ég hugleiddi það alveg en hugsaði mig vel um og tók svo þá ákvörðun að fara hvergi. Ég hef mikla trú á minni heimabyggð og vildi heldur vera áfram og leggja mitt af mörkum til að byggja upp hér heima.“

Næg atvinna en vantar húsnæði

Fiskeldi Austfjarða starfrækir fiskeldi í Berufirði. Þar var lengst af eldi á regnbogasilungi en á liðnu sumri var skipt yfir í lax. Eldið gengur að sögn Jónu Kristínar vel og hjól atvinnulífsins á Djúpavogi snúast nú hratt og örugglega. Næga vinnu er að fá en líkt og gildir um fleiri staði á landsbyggðinni stendur skortur á húsnæði áframhaldandi vexti fyrir þrifum. „Það er ekkert húsnæði fyrir hendi hér á Djúpavogi, lítið sem ekkert verið byggt hin síðari ár en atvinna er næg og við gætum vel fjölgað hjá okkur starfsfólki,“ segir hún.

Alls starfa um 50 manns hjá Búlandstindi um þessar mundir. „Samfélagið hér um slóðir er mjög gott. Það hefur færst í vöxt að ungt og menntað fólk hafi flutt heim á ný, hafi séð tækifæri hér á heimaslóðum og tekið til hendinni við uppbyggingu. Þannig að almennt þykir okkur sem hér búum bjartsýni vera ríkjandi á svæðinu.“

Um 450 manns búa í sveitarfélaginu. Sjávarútvegur er hryggjarstykkið í atvinnulífinu sem þó býður upp á fjölbreytt tækifæri á öðrum sviðum einnig. Meðal annars hefur, líkt og annars staðar á landinu, verið mikil uppbygging á sviði ferðaþjónustu.

Hver og einn er hlekkur í keðju

Hjá Búlandstindi á Djúpavogi er jöfnum höndum unnið við að salta fisk og slátra, vinna og pakka laxi. Jóna Kristín segir laxeldið góða viðbót og að viðhorf Austfirðinga til laxeldis í sjókvíum sé fremur jákvætt. „Þetta hefur skapað heilmikla atvinnu á svæðinu og ég sé ekki betur en þeir sem að því standa hafi metnað til að standa að öllum málum eins og best verður á kosið,“ segir hún.

„Laxeldið í Berufirði hefur gríðarmikil og góð áhrif á allt samfélagið á Djúpavogi, það skapar atvinnu fyrir þá sem við það starfa við að fæða seiðin, viðhalda kvíum og annað slíkt. Það skapast líka vinna fyrir okkur sem störfum hjá Búlandstindi við slátrun og pökkun og þá er fólk að störfum við afgreiðslu og flutninga til og frá staðnum. Þessi starfsemi eflir verslun á staðnum, skólarnir eru öflugri fyrir vikið sem og öll þjónusta. Við erum í raun ein löng keðja og hver og einn einstaklingur er hlekkur í þeirri kveðju,“ segir Jóna Kristín.

Búlandstindur laxavinnslaErum að skapa verðmæti

Laxinn er sóttur út í kvíar á Berufirði og fluttur lifandi til vinnslu hjá Búlandstindi þar sem hann er slægður, hreinsaður og honum pakkað í neytendaumbúðir sem komið er fyrir í frauðplastkössum og stæðurnar að því búnu fluttar á markað. Gott verð hefur fengist fyrir afurðirnar og útlit fyrir að svo verði áfram næstu misseri.

„Það er mikil vinna í kringum þetta og allir ánægðir með það, vinnslan er stöðugt í gangi, við stoppum ekki til að taka kaffi- og matarhlé heldur leysum hvert annað af. Þetta er heilmikil keyrsla,“ segir hún og bætir við að hún kunni starfi sínu vel. Fiskmatsmaður sér um flokkun á fiskinum og segir Jóna Kristín það skemmtilegt starf.

„Ég er ávallt með það í huga að við séum að skapa verðmæti. Við erum í matvælaframleiðslu og við erum að vinna að einhverju sem skiptir máli. Þess vegna verður að vanda til verka,“ segir hún.

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Athygli gefur út. Blaðið má lesa á eftirfarandi slóð: https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

Deila: