Fín veiði þegar friður er fyrir veðri

Deila:

Bæði Vestmannaey VE og Bergey VE hafa verið að fiska vel að undanförnu þrátt fyrir óhagstætt tíðarfar. Þriggja daga brælustopp var hjá skipunum um sl. helgi en síðan var haldið til veiða á mánudag. Bæði skipin komu til löndunar í gærmorgun, Vestmannaey með um 80 tonn og Bergey með um 50 tonn. Aflinn fékkst við Vestmannaeyjar.

Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey, og sagði hann að veiðin væri fín þegar friður væri fyrir veðri. „Vertíðarfiskurinn er farinn að mæta hér við Eyjarnar og í sannleika sagt hefur aflinn verið ótrúlega góður. Núna í síðasta túr var aflinn hjá okkur um 40% þorskur en síðan voru þetta allar sortir; lýsa, skata, ufsi og karfi. Ýsan er ekki enn farin að láta sjá sig í miklum mæli hér á Eyjamiðunum. Mér líst býsna vel á þetta og nú er útlit fyrir batnandi veður sem skiptir miklu máli,“ sagði Birgir.
Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson.

Deila: