Íslenska Kalkþörungafélagið ehf

Deila:

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Íslenska Kalkþörungafélagið ehf. Bíldudal. Núgildandi starfsleyfi fyrirtækisins, er rennur út 2022, heimilar framleiðslu á allt að 50.000 tonnum af kalki á ári. Nú er sótt um að auka framleiðsluna upp í 85.000 tonn.

Verksmiðja Íslenska Kalkþörungafélagsins er staðsett við hafnarsvæðið á Bíldudal í miklu nágrenni við íbúa bæjarins. Nokkuð hefur borið á kvörtunum frá íbúum vegna hávaða og ryks. Í tilkynningu fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matskyldu kom eftirfarandi fram: „Áhrif framleiðsluaukningar á loftgæði eru metin talsvert neikvæð, en með endurbótum á framleiðsluferlinu eru áhrif í heild talin óveruleg.“ Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kom eftirfarandi fram: „Með verulega aukinni framleiðslu kemur aukið álag á hreinsikerfi verksmiðjunnar og því brýnt að ná tökum á útblæstri og rykmyndun sem vinnslunni fylgir áður en frekari framleiðsluaukning er leyfð. Stofnunin bendir á að tryggja þarf að áætlun um vöktun og viðbrögð við niðurstöðum liggi fyrir við leyfisveitingar og að viðeigandi skilyrði séu sett í leyfið þar um.“

Í drögum að starfsleyfi Kalkþörungaverksmiðjunar sem nú er auglýst eru losunarmörk ekki víkkuð frá síðasta starfsleyfi og verða rekstraraðilar verksmiðjunnar því að tryggja að ryk-, hávaða- og svifagnamengun frá verksmiðjunni aukist ekki við stækkunina. Ekki er gert ráð fyrir að halda kynningarfund vegna tillögunnar en komið fram óskir um slíkt verður sú ákvörðun endurskoðuð.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnunar. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 5. apríl 2018.

 

Deila: