Ljósmyndun er áhugamálið

Deila:

Maður vikunnar á kvótanum að þessu sinni er Grindvíkingurinn Jón Steinar Sæmundsson. Hann byrjaði að vinna við beitningu 13 ára gamall, var betur borgað en bæjarvinnan. Jón Steinar er mikill áhugamaður um ljósmyndun og á fésbókarsíðu hans má sjá glæsilegar myndir, meðal annars úr innsiglingunni í Grindavík, en hún er oft torfær í vondum veðrum.

Nafn?

Jón Steinar Sæmundsson.

Hvaðan ertu?

Gotstöðvar mínar eru Ísafjörður.

Fjölskylduhagir?

Ég er í sambúð með Helgu Ólínu Aradóttur sem að starfar sem sérkennari. Ég á tvær dætur frá fyrra hjónabandi og eitt barnabarn og Helga á þrjár dætur og tvö barnabörn þannig að saman erum við forrík.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa sem vélstjóri í saltfiskvinnslu Vísis í Grindavík.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði 13 ára að sumarlagi við beitningu og var það miklu skárra og betur borgað en bæjarvinnan.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er fjölbreytnin og þróunin sem að gerir þetta asskoti gaman.

En það erfiðasta?

Það getur stundum gengið mikið á og dagarnir verið langir.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Að vera sendur út á land í vinnuferð sem átti að vera dagsferð og koma heim úr umræddri ferð tveimur vikum síðar.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru sko margir eftirminnilegir en ég verð að segja Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála (Jón á Skála). Sögurnar sem að kallinn sagði okkur guttunum voru margar hverjar alveg ógleymanlegar.
Hver eru áhugamál þín?

Það má segja að utan fjölskyldunnar sé það ljósmyndunin sem að á hug minn allann.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ég er jafnvígur á kjöt og fisk en ef ég ætti að velja eitthvað svona uppáhalds og spari veldi ég alveg hryllilega blóðuga nautasteik.

Hvert færir þú í draumfríið?

Það yrði sennilega sólríkur staður í suðri fyrir valinu en hvar veit ég ekki. Sennilega Tenerife, Bali, Kúba eða einhver staður þarna á hinum norðurlöndunum.

 

Deila: