Þéttari loðnutorfur en í fyrra

Deila:

„Það var algert blíðuveður og það tók ekki langan tíma að fá aflann. Við tókum þrjú köst á Meðallandsbugtinni um 5-8 sjómílur vestur af Ingólfshöfða. Í fyrsta kastinu fengust 860 tonn, 180 tonn fengust í öðru og 440 í því þriðja,“ er haft eftir Tómasi Kárasyni, skipstjóra á Beiti NK, á vef Síldarvinnslunnar en skipið kom nú um hádegisbil til Neskaupstaðar með tæplega 1500 tonn af loðnu. Tómas er ánægður með veiðina á miðunum.
„ Við köstum fyrst klukkan átta í gærmorgun og vorum lagðir af stað í land klukkan tvö eftir hádegi. Það var almennt góð veiði þarna og mikið að sjá. Þetta er allt öðruvísi en í fyrra. Nú er betra að eiga við þetta, lóðningarnar eru þéttari og eru að skila vel. Þá ber að geta þess að við höfum séð góðar lóðningar út af Austfjörðum á landleiðinni,“ segir Tómas.

Það voru fleiri skip en Beitir sem fengu myndarleg köst. Frá því segir að grænlenska skipið Polar Amaroq hafi fengið  1.100 tonna kast í nótt sem leið og haldið með þann afla til löndunar í Fuglafirði í Færeyjum. Á vef Síldarvinnslunnar segir að loðnan sem nú veiðist sé falleg. Hrognafylling sé komin í um 16% og endin áta sé í loðnunni. Um meira sé því ekki hægt að biðja.

Deila: